Rhone to the Bone!

Jæja, þá er 20. starfsár Vínsíðunnar formlega hafið!
Vonandi hafa jól og áramót farið vel í alla vínunnendur og gæðin fengið að ráða för en ekki magnið, en það eiga allir vínunnendur auðvitað að hafa að leiðarljósi.
Árið hefur byrjað nokkuð rólega  en það eru þó nokkrar umsagnir sem bíða birtingar, bæði frá lokadögum ársins 2017 og svo rjúkandi ferskir dómar.
Fyrsta vín dagsins kemur frá Frakklandi, nánar tiltekið frá suðurhluta Rónardalsins.  Vínin frá Cotes-du-Rhone eru flestum vel kunnug og yfirleitt nokkuð góð kaup í vínum þaðan (a.m.k. í seinni tíð).  Vínhús Ravoire & fils (Ravoire og synir) var stofnað árið 1987, en samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins hefur fjölskyldan þó sinnt ræktun vínviðar í nærri 500 ár! Vín dagsins er þó líklegast fremur nýtt af nálinni því þess er ekki getið á heimasíðinni.  Það er þó algjör óþarfi fyrir Ravoire og syni að skammast sín fyrir þetta vín, að mínu mati.
Samkvæmt gildandi reglum í Cotes-du-Rhone verða rauðvín sem kennd eru við svæðið að innihalda Grenache að stærstum hluta (minnst 40%) og svo verða minnst 15% að vera Syrah eða Mourvedre.
Rhone to the Bone Cotes-du-Rhone 2015 er gert úr þrúgunum Grenache (65%) og Syrah (35%).  Það er dökkrúbínrautt á á lit, unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður hindber, sólber, leður, pipar, plómur og ögn af kanil. Í munni mild tannín, fullmikil sýra, ágætur ávöxtur, rauð ber, aðeins þunnt í lokin. Ágætt matarvín fyrir lamb, fuglakjöt og svín. Góð kaup (2.199 kr). 87 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook