Malbec frá Cahors

Þó svo að þrúgan Malbec virðist njóta sín best í Mendoza-héraði í Argentínu þá á hún sér víst lengri sögu í Frakklandi.  Héraðið Cahors er staðsett í miðju Frakklandi, og rauðvínin þaðan verða að innihalda a.m.k 70% Malbec til að mega kenna sig við héraðið.  Afgangurinn er svo úr Merlot eða Tannat, og það ætti að gefa auga leið að vín gert úr þessum þrúgum verður ávallt nokkuð hrjúft.
Vingerð í Cahors á sér langa sögu – allt aftur til tíma Rómaveldis – og árið 1971 fékk héraðið eigin AOC-skilgreiningu. Vegur héraðsins reis einna hæst á miðöldum, þegar vínin voru á borðum Rússakeisara, páfans og fleiri fyrirmenna. Héraðið fór, líkt og flest vínhéruð Frakklands, illa út úr innrás phylloxera-rótarlúsarinnar á 19. öld, og árið 1956 gerði svo miklar frosthörkur að nær allur vínviður í Cahors drapst og þurfti að gróðursetja nýjan vínvið.  Þá jókst hlutdeild Malbec verulega frá því sem áður hafði verið.
Chateau d’Ourbenac Malbec Cahors 2010 er dökkkirstuberjarautt á lit, með angan af sólberjum, krækiberjum og útihúsum.  Í munni eru svört ber, smá hratkeimur, lakkrís og mynta, nokkuð hrjúft vín eins og búast má við og var ekki alveg að falla að mínum bragðlaukum.  2.199 krónur. 84 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

 
 

Vinir á Facebook