Gott Sauvignon Blanc

Flestir lesendur Vínsíðunnar kannast væntanlega við vínin frá Gérard Bertrand í Languedoc í Frakklandi.  Hann hefur verið talsmaður lífrænnar ræktunar og sífellt fleiri vín frá honum eru ræktuð og gerð á umhverfisvænan og lífrænan hátt, og vínekrurar hans eru meira að segja vottaðar sem býflugnavænar, en býflugur gegna jú mikilvægu hlutverki í frjóvgun vínviðar sem og annarra jurta, en býflugum hefur fækkað mikið í heiminum og er það áhyggjuefni.
Vín dagsins er hvítvín, sem framleitt er á lífrænan hátt líkt og önnur vín í þessari línu – Réserve Spécial, en í henni eru alls 12 vín – 6 rauð, 4 hvít og 2 rósavín – og 5 þeirra eru fáanleg í vínbúðnum.
Gérard Bertrand Réserve Spécial Sauvignon Blanc 2016 er föl-strágult á lit.  Í nefinu finnur maður hin klassísku sólberjalauf ásamt greipaldin, suðrænum ávöxtum og aspas.  Í munni er vínið frísklegt, með fína sýru og ávöxt – sítrusávextir, perur og melónur í góðu eftirbragðinu. Hentar vel með fiski, asískum mat, pinnamat eða bara sem fordrykkur. Góð kaup (2.299 kr). 87 stig (daðrar við fjórðu stjörnuna).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook