Fjögurra stjörnu vín frá Toro

Héraðið Toro er staðsett í norðvesturhluta Castilla y Leon, nálægt landamærum Spánar og Portúgal.  Víngerð í Toro á sér langa sögu, en það var þó ekki fyrr en árið 1987 að svæðið var sérstaklega skilgreint sem Denominación de Origen (á Spáni eru 9 svæði skilgreind sem DO, en aðeins 2 svæði eru skilgreind sem DOC (sem er ofar í virðingarstiganum) – Rioja og Priorat). Rauðvín frá Toro eru gerð úr Tempranillo og/eða Garnacha, en hvítvínin úr Malvasía og Verdejo.  Vínviðurinn í Toro slapp við rótarlúsarfaraldurinn sem lagði vínekrur víða í Evrópu nánast í rúst á seinni hluta 19. aldar, en þar sem jarðvegurinn í Toro er mjög sendinn náði rótarlúsin ekki fótfestu og vínviðurinn slapp undan.  Vínviður frá Toro var þá fluttur til annarra vínræktarhéraða á Spáni í kjölfar faraldursins, en sá útflutningur minnkaði þegar farið var að græða vínvið á rætur sem þoldu rótarlúsina.  Slíkt hefur þó ekki þurft að gera í Toro og í héraðinu má enn finna mjög gamlar vínekrur sem eiga rætur frá því fyrir rótarlúsarfaraldurinn.
Samkvæmt vef vínbúðanna eru 5 vín frá Toro fáanleg í vínbúðunum og óhætt að benda áhugasömum lesendum að prófa þau.
Vín dagsins er Crianza frá Toro, og samkvæmt reglum héraðsins þarf slíkt vín að vera gert úr þrúgunni Tinto de Toro (Tempranillo) og fá að þroskast í minst 2 ár, þar af minst 6 mánuði í eikartunnum, áður en heimilt er að selja það.
Vínhúsið Bodega Sobreño er ungt fyrirtæki, stofnað árið 1998 og ræktar vínvið á um 30 hektörum en annast einnig vínekrur á 90 hektörum í eigu vínbænda í næsta nágrenni.  Vínviðurinn sem gefur af sér þrúgurnar í vín dagsins er að minnsta kosti 30 ára gamall, og vínið er látið liggja í 8 mánuði í tunnum úr amerískri eik áður en það er sett á flöskur.
Finca Sobreño Crianza 2012 er dökk-kirsuberjarautt og unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður leður, kirsuber, balsamedik og ferskar kryddjurtir.  Í munni eru hrjúf tannín, fín sýra, góður ávöxtur. Kirsuber, plómur og súkkulaði í löngu og góðu eftirbragðinu. Mjög góð kaup (2590 kr).  Vín fyrir góðar steikur, osta og jafnvel bragðmikla pastarétti. 88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook