Stærri boltar

Áfram hélt veislan hjá Vínklúbbnum og nú var röðin komin að víni sem sló algjörlega í gegn!  Flest þekkjum við Malbec-þrúguna sem dafnar svo vel í Mendoza-héraði í Argentínu – lakkrís, eik og rauð ber.  Oft finnst manni þessi vín vera aðeins hrá og tannískt en hér er komið vín sem sýnir svart á hvítu að Malbec geta líka verið stórfengleg.
Achaval-Ferrer Finca Altamira Mendoza 2011 er mjög dökk-dökkrautt á lit, með mikla dýpt en unglegt að sjá.  Fallegir taumar í glasinu.  Í nefinu finnur maður jarðarber, kirsuber, plómur, lakkrís og ameríska eik (ristað brauð).  Í munni er vínið mjög kraftmikið en um leið flauelsmjúkt, nánast smjörkennt, með mikla fyllingu og í feiknagóðu jafnvægi – á nóg eftir.  Eftirbragðið langt og mikið með kaffitónum.  Frábært vín (9.876 kr), fær 96 stig í einkunn hjá Vínklúbbnum (Wine Spectator gefur sömu einkunn).  Mæli eindregið með þessu víni!

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook