La Grola 2013

Fyrsta rauðvínið á síðasta vínklúbbsfundi var ítalskt, og aftur var valin víntegund sem ekki ratar oft á vínklúbbsfundi, nefnilega vín frá Veronahéraði á Ítalíu.  Það var mér mikið ánægjuefni þegar vínin frá Allegrini bárust í hillur Vínbúðanna, því ég kynntist þeim af góðu einu þegar ég bjó í Svíþjóð.  La Grola er eitt af stærri vínum Allegrini, gert úr þrúgunum Corvina (90%) og Oseleta (10%), og er látið liggja á eikartunnum í 16 mánuði og svo á flöskum í 10 mánuði áður en það fer frá framleiðanda.
Allegrini Veronese La Grola 2013 er fremur unglegt að sjá, með ágæta dýpt, aðeins skýjað, með þétta tauma. Í nefinu finnur maður skógarber, rúgbrauð, fíkjur, kaffi og smá spíra.  Í munni er vínið mjög tannískt, kryddað, með kirsuberja- og krækiberjakeim, tóbak og smá kaffi.  Virðist ekki alveg í nógu góðu jafnvægi, aðeins of ungt til að drekka núna.  Vínklúbburinn gefur þessu víni 87 stig (Wine Spectator gefur 90 stig).  Kostar 3.690 krónur í Vínbúðunum. Hentar vel með grilluðu kjöti og vel þroskuðum ostum.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook