Gula ekkjan stendur enn fyrir sínu

Clicquot-víngerðin á sér langa sögu, sem rekja má aftur til ársins 1772.  Sagt er að víngerðin hafi verið sú fyrsta til að búa til rósa-kampavín árið 1775 með því að bæta rauðvíni út í við framleiðsluna.  Nafnið Veuve Clicquot („Ekkjan Clicquot“) er komið frá því að árið 1805 tók Barbe-Nicole, ekkja sonar stofnanda Clicquot við stjórnartaumum fyrirtækisins þegar eiginmaður hennar féll frá.  Hún varð fyrsta konan til að stýra kampavínshúsi (víngerðir sem framleiða kampavín kallast almennt kampavínshús).  Smám saman losaði hún sig við aðra starfsemi fyrirtækisins og einbeitti sér að framleiðslu kampavíns, með góðum árangri.  Allt frá stofnun fyrirtækisins hafa aðeins 10 manns gegnt starfi kjallarameistara, sem hefur yfirumsjón með kjöllurunum þar sem kampavínið er geymt á meðan það er að þroskast.  Guli miðinn, sem er einkennismerki fyrirtækisins, var tekinn í notkun árið 1877 – 10 árum eftir að Barbe-Nicole Clicquot lést – og hefur haldist nær óbreyttur síðan þá, eins og vínið!  Vínið sem hér er fjallað um er ekki árgangsvín, heldur er það blandað þannig að það sé eins frá ári til árs, og kaupendur geta gengið að gæðunum vísum.  Vínið er blanda Pinot Noir, Chardonnay og Pinot Meunier í hlutföllum sem geta verið breytileg milli ára, en að jafnaði er Pinot Noir um 50%, Chardonnay rúm 30% og Pinot Meunier tæp 20%.
Veuve Clicquot Brut Champagne er ljóssítrónugult á lit, með ágæta dýpt, freyðir vel og hefur fína tauma.  Í nefinu finnur maður sítrus, græn epli, perur og ferskjur.  Í munni freyðir það vel, þurrt með ágæta sýru, eikar- og sítrustóna, ögn af vanillu og ristað brauð í eftirbragðinu.  Hentar vel með skelfiski, laxi, önd, gæs og svo auðvitað til að skála og gleðjast.  Góð kaup (6.998 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook