Góður Barolo á frábæru verði!

Barolo-vínin frá Piemonte-héraði í N-Ítalíu þykja með betri rauðvínum sem hægt er að fá, og eru að mínu mati fyllilega sambærileg við góð Bordeaux-vín. Þessi vín eru gerð úr þrúgunni Nebbiolo, sem er ein mikilvægasta þrúgan í Piemonte, en ekki mjög algeng annars staðar. Því miður er verðið oft í hærri kantinum og maður þarf oft að punga út drjúgum skildingi til að komast yfir flösku af Barolo.  Það á hins vegar ekki við um það vín sem hér er fjallað um – vissulega kostar það nokkrar krónur en það er vel þess virði.  Það er því miður frekar lítið framboð á Barolo hér á Íslandi – aðeins 4 tegundir að finna á vef Vínbúðanna (í Svíþjóð eru 34 tegundir í almennri sölu og um 160 alls ef sérvörulistinn er tekinn með).
ricossa barolo 2012Ricossa Barolo 2012 er ljósmúrsteinsrautt, góð dýpt og kominn örlítill þroski í kantinn.  Í nefinu finnur maður tóbak, skógarbotn, eik, smá myntu og lakkrís.  Í munni eru góð tannín sem eru aðeins farin að mýkjast, hæfileg sýra á móti þeim og vínið er í góðu jafnvægi. Elegant vín sem nýtur sín vel eitt og sér, en fer einnig vel með ostum og góðum steikum – naut, lamb og villibráð.  Mjög góð kaup (3.790 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook