Húsvín

Þegar ég bjó í Uppsölum í Svíþjóð komst ég upp á lag með að hafa húsvín, en það var lærimeistari minn Einar Brekkan sem kom mér á bragðið.  Tilgangur húsvíns er að hafa alltaf aðgang að góðu víni þegar ástæða er til.  Með því að gæta þess að eiga alltaf nokkrar flöskur af góðu víni á góðu verði  getur maður boðið óvæntum gestum upp á glas af góðu víni eða fengið sér vín með matnum þó svo að maður hafi gleymt að fara í vínbúðina.  Húsvínið þarf að vera þannig að það falli flestum í geð, en það þarf líka að vera á góðu verði svo maður sjái ekki eftir því að opna eins og eina flösku.  Ef þú átt húsvín lendir þú ekki í þeirri stöðu að þurfa að taka fram flösku sem þú hafðir hugsað þér að geyma aðeins, þegar gesti ber að garði, því ekki vill maður vera álitinn nískur og tíma ekki að bjóða upp á vínglas þegar gesturinn veit að þú átt ýmislegt góðgæti til í kælinum.

En hvaða vín geta verið húsvín?  Eiginlega öll vín – einu skilyrðin sem ég set er að mér þarf að líka vel við vínið og verðið þarf að vera gott.  Ég kýs því yfirleitt vín sem kosta nálægt 2.000 krónum (líklega eru þau oftast á bilinu 2.000-2.500 krónur en helst ekki dýrari en svo).  Ég tel æskilegt að eiga bæði rautt og hvítt húsvín til að geta valið vín við hæfi.  Þegar ég vel mér húsvín vel ég oft vín sem nýlega hafa vakið athygli fyrir að vera gæðavín á góðu verði og þá kaupi ég yfirleitt nokkrar flöskur í senn, að jafnaði 6 rauðar og 2-3 hvítar.  Tiltekið vín getur svo verið húsvín um nokkurt skeið en ég kaupi kannski ekki mikið meira en 12 flöskur samtals af tilteknu víni áður en skipt er yfir í annað vín.  Sem dæmi um vín sem hafa verið húsvín hjá mér í seinni tíð má nefna Cazes Hommage 2011 (kostar 2.498 krónur, sem er í dýrari kantinum fyrir húsvín), Altano Douro 2011 (2012 árgangurinn, sem er ekki alveg jafn góður, þó fínn sé, kostar 1.974 krónur), Fontanafredda Briccotondo (var húsvín í Svíþjóð, hér kostar 2013-árgangurinn 2.341 krónu – fyrirtaks vín) og meira að segja Concha y Toro Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon (kostar 2.999 kr) hefur verið húsvín hjá mér.  Um þessar mundir er ég að sjálfsögðu með Pata Negra Rioja Reserva 2010 (2.299 kr) sem húsvín, enda leitun að betri kaupum í vínbúðunum um þessar mundir.  Bodegas LAN Crianza 2010 (1.999 kr) kemur þó sterklega til greina sem næsta húsvín enda einnig um firnagott vín að ræða á mjög góðu verði.  Ég hef ekki verið jafn stórtækur í hvítum húsvínum (læt nægja að eiga 2-3 flöskur af hvíta húsvíninu), en hef þó verið hrifinn af Tiki Sauvignon Blanc 2013 (1.975 kr) að undanförnu.  Að jafnaði er einhver tiltekin hvítvínsþrúga í uppáhaldi hjá mér en ég skipti yfirleitt oft um uppáhald, en sauvignon blanc-tímabilið er farið að verða ansi langt hjá mér, rúmlega 3 ár.  Pinot Gris/Grigio hefur þó verið að færa sig upp á skaftið að undanförnu og Montalto Pinot Grigio 2013 (1.599 kr) hefur vaxið ásmegin hjá mér.

Ástæða þess að ég vel húsvín umfram kassavín er sú að yfirleitt er ég að velja aðeins betri vín í húsvínið, en kassavínið er frekar til hversdags notkunar hjá ykkur (glas með matnum, nú eða bara til matargerðar).  Það er líka miklu hugglegra að geta boðið gestum upp á það að opna flösku af góðu víni.

Vinir á Facebook