Pata Negra Rioja Reserva 2010

Eitt af betri kaupunum í vínbúðunum um þessar mundir er Pata Negra Rioja Reserva 2010.  Vínið hlaut 18,5 stig af 20 mögulegum hjá breska víntímaritinu Decanter, sem mótsvarar 95 stigum á 100-punkta listanum sem m.a. Wine Spectator notar.  Aðrir vínskríbentar hafa einnig verið hrifnir af þessu víni, þó þeir hafi ekki verið alveg jafn örlátir og hjá Decanter (þar voru þó 3 dómarar sammála og gáfu sömu einkunn).  Þannig gefur hið sænska tímarit Livets Goda víninu 87 stig, sem er reyndar ágætis einkunn fyrir vín sem kostar ekki nema 2.299 krónur.

Ég smakkaði vínið um daginn og var mjög ánægður með það.  Vínið er dökkt og djúprautt á lit, með byrjandi þroska.  Í nefið kemur tóbak, kaffi, skógarber, ristuð eik og smá lavendel.  Í munni er það í góðu jafnvægi, enginn bolti en samt með góða fyllingu, hæfileg tannín og heldur sér vel fram í eftirbragðið þar sem það lumar á smá súkkulaðikeim.  Einkunn: 8,5 – mjög góð kaup og ofarlega á listanum mínum yfir kandidata sem húsvín.  Meira um það síðar…

Vinir á Facebook