Castello Banfi Bolgheri ASKA 2012

Svokallaðir ofur-Toscanar eru gæðavín sem ekki fylgja hefðbundnum venjum við víngerð í Toscana-héraði.  Almennt gildir um vín frá Toscana að þau eru gerð úr Sangiovese-þrúgunni, en það á ekki við um ofur-Toscana.  Algengt er að vínin séu úr Cabernet Sauvignon og öðrum þrúgum, gjarnan hin sk. Bordeaux-blanda (Cabernet Sauvignon, Merlot og Cabernet Franc).  Áður fyrr voru þessi vín flokkuð sem vino de tavola (borðvín) en árið 1994 var reglunum í Bolgheri-héraði breytt og þessi vín flokkast nú sem DOC.  Sums staðar eru vínin reyndar enn flokkuð sem IGT, sem er skörinni lægri.

Castello Banfi Bolgheri ASKA 2012 er dæmigerður ofur-Toscani, gerður að mestu úr Cabernet Sauvignon með smá slettu af Cabernet Franc.  Að lokinni gerjun liggur það 10 mánuði í eikartunnum áður en það er sett á flöskur.  Vínið er dökkrautt, með angan af kirsuberjum, plómum, lakkrís, súkkulaði og pipar, vottar einnig fyrir tóbaki.  Í munni er vínið fágað með góða fyllingu, í góðu jafnvægi, gott berjabragð og lakkrís- og súkkulaðitónar sem haldast vel út í eftirbragðið.  Einkunn: 9,0 – góð kaup (3.649 kr).  James Suckling, blaðamaður Wine Spectator, gefur þessu víni 93 stig.  Smellpassaði með grillaðri lambalund.
 

Vinir á Facebook