Ogier cotes du Rhone Gentilhomme 2013

Á frönsku vínkynningunni í Perlunni í voru mörg vín sem vöktu hrifningu viðstaddra, líkt og áður hefur verið greint frá.  Þannig hefur Cazes Hommage verið húsvín hjá mér í sumar, þó það hafi þurft að víkja fyrir öðru víni í lok sumars.

Eitt af þeim vínum sem komu vel út úr Perlu-kynningunni var Ogier Cotes du Rhone Gentilhomme 2013.  Þetta er dæmigert Cotes du Rhone – ljósrautt og unglegt að sjá,  í nefinu þægileg angan af vanillu, pipar og leðri, aðeins kryddað og eikin er ekki langt undan. Hæfileg tannín, en skortir aðeins sýru til að mýkja upp tannínin, þægilegt eftirbragð sem heldur sér ágætlega. Einkunn: 7,5 – fyrirtaks grillvín.  Vínið sýnist mér ekki vera fáanlegt í Vínbúðunum (a.m.k. finn ég það ekki á heimasíðum Vínbúðanna) en vonandi birtist það í hillunum innan skamms.

Ogier á nokkur vín í hillunum, flest í svipuðum stíl og þetta vín – létt og þægileg vín á góðu verði.
Víngerð í Cotes du Rhone á sér langa sögu, allt frá því fyrir daga rómaveldis.  Vínin þaðan hafa löngum þótt gæðavín, og á 17. öld gaf konungur Frakklands út reglur varðandi vín frá Cotes du Rhone til að tryggja gæði framleiðslunnar og árið 1737 varð skylt að merkja allar víntunnur sem fluttar voru frá héraðinu með stöfunum CDR og sú merking er fyrsti vísirinn að því regluverki sem í dag gildir um frönsk vín.  Í vín frá Cotes du Rhone er heimilt að nota þrúgurnar Grenache noir, Syrah, Cinsault, Carignane, Counoise og Mourvèdre í rauðvín og rósavín, en einnig er heimilt að nota allt að 10% hvítar þrúgur í rauðvín og 20% í rósavín.  Öll rauðvín frá héraðinu verða að innihalda a.m.k. 15% Syrah og/eða Mourvèdre og í suðurhluta Cotes du Rhone verða rauðvínin að innihalda a.m.k. 40% Grenache.  Í hvítvínin verða minnst 80% þrúganna að vera blanda af Clairette, Grenache blanc, Marsanne, Roussanne, Bourboulenc og Viognier, en einnig er heimilt að nota þrúgurnar Ugni blanc og Picpoul blanc til íblöndunar.

Í vínbúðunum eru fáanleg 14 vín frá Cotes du Rhone – 3 hvít og 11 rauð (eitt þeirra fæst líka sem kassavín) – og þau eru öll á verðbilinu 2-3.000 krónur og óhætt að mæla með flestum þeirra.

Vinir á Facebook