Af hverju drekkum við ekki meira rósavín?

Ég hef stundum velt þessu fyrir mér og svarið er kannski á reiðum höndum?  Ég held nefnilega að rósavín séu fórnarlamb fordóma og hafi á sér stimpil smekkleysu og lágkúru.  Eflaust tengja það einhverjir við gamlar minningar og fyrstu kynni af vínum – hver man svo sem ekki eftir að hafa drukkið Mateus og Lambrusco hér áður fyrr?  Þessi vín hafa líklega verið fyrstu kynni margra af léttvínum, og smekkurinn síðan þróast yfir í rauðvín og hvítvín, enda þykir það fínna að drekka slík vín, en ekki rósavín.

Um daginn var staddur hér á landi hópur fulltrúa franskra vínframleiðenda.  Nokkrum vínáhugamönnum var boðið á kynningarfund með þeim áður en haldin var glæsileg vínkynning í Perlunni, sem áður hefur verið fjallað um hér á síðunni.  Sem fordrykk fengum við glas af Gassier Coteaux d’Aix-En-Provence 2014 og vakti það almenna lukku hjá viðstöddum.  Í spjalli mínu við einn fulltrúann frétti ég að þriðjungur alls léttvíns sem drukkinn er í Frakklandi er rósavín, og ég varð frekar hissa að heyra það.  Við nánari athugun er það þó alls ekkert skrítið.  Ég gef mér að stærstur hluti rósavínsdrykkjunnar eigi sér stað að sumarlagi, þegar heitt er í veðri.  Þá er gott að fá sér glas af svalandi rósavíni.  Rósavín hentar líka mjög vel með sumarlegum mat – salati, fiski, ljósu fuglakjöti, bökum, pizzum og fleiri réttum af því tagi.  Kannski er hluti skýringarinnar á því af hverju við íslendingar drekkum ekki svo mikið af rósavíni sú að hér er langt í frá að vera jafn heitt á sumrin, og við höfum ekki sömu þörf fyrir svalandi vín með matnum (fáum okkur þá líklega glas af hvítvíni).  Annars kostur við rósavín er sá að þau eru yfirleitt ekki jafn áfeng og hvítvín og rauðvín, og eru yfirleitt ekki dýr.

En rósavín geta verið margslungin og misjöfn að gerð og gæðum.  Aðferðirnar við að búa til rósavín eru einkum tvær – annars vegar er það búið til úr blöndu hvítvíns og rósavín, en hins vegar er það gert frá grunni úr þrúgum, þar sem vínið er látið liggja í mjög stuttan tíma með hýðinu (saignée-aðferð), þaðan sem það sækir lit sinn, og sú aðferð þykir mun fínni en blöndunaraðferðin.  Útkoman er mjög ólík og ræðst auðvitað líka af því hvaða þrúgur eru notaðar við gerð vínsins.  Ég ákvað að kanna þetta nánar og varð mér úti um nokkur rósavín.

Marques de Riscal Rioja Rosado NV (1.974 kr)
Við þekkjum vel rauðvínin frá Marques de Riscal, sem lengi hafa verið fáanleg í vínbúðunum og notið vinsælda hjá landsmönnum.  Rauðvínin frá Rioja eru gerð úr Tempranillo, og þetta rósavín er líka 100% Tempranillo, gert með saignée method – stuttur tími í tengslum við hýðið af þrúgunum. Vínið er svo látið gerjast í stáltönkum og fær ekki mikla snertingu við eik.  Það er ljósrautt á lit, með hindber og spíra í daufri lyktinni. Þurrt, vægur berjakeimur, bragðdauft.  Vínið vakti litla hrifningu hjá mér og öðrum sem smökkuðu með mér.  Einkunn: 6,0

Gassier Coteaux d’Aix-En-Provence 2014
Þetta vín smakkaði ég fyrst hjá frönsku vín-agentunum, eins og kemur fram hér að ofan.  Ég smakkaði þetta vín svo aftur nú í sumar og var alveg jafn hrifinn og við fyrstu kynnin.  Vínið er ljósbleikt í glasi.  Í nefinu hindber og jarðarber, smá sætur ilmur. Þurrt, kannski aðeins of mikil sýra, ágæt fylling, aðeins hnetukennt eftirbragð. Einkunn: 7,5 góð kaup (1.999 kr)

Carlo Rossi California Rosé NV
Þetta er ákaflega sumarlegt vín sem hentar vel fyrir móttökur og garðveislur (ódýrt vín, sem hentar vel ef kaupa á vín fyrir fjölda manns), en er ekki alveg jafn spennandi matarvín.  Þetta er bleikt og sumarlegt vín.  Sætur jarðarberjakeimur, blómlegur, skilar sér vel í bragðinu, sem er hálfsætt og einfalt – rennur ljúflega niður. Einkunn: 6,5 (1.279 kr)

Santa Cristina Cipresseto Rosato 2013
Santa Cristina er í eigu Antinori-fjölskyldunnar í Toscana, og rauðvínið þeirra hefur verið í hópi mest seldu rauðvínanna á Íslandi og víðar í mörg ár.  Nafnið cipresseto vísar til cyprusviðarins sem er algengt sjón í Toscana Þetta vín er einnig framleitt með saignée-aðferðinni, þar safinn liggur á hýðinu í nokkrar klukkustundir áður en gerjunin er látin halda áfram í stáltönkum.  Ljósrautt.  Jarðarberja- og kirsuberjakeimur, skógarber og vatnsmelóna.  Í munni örlítil kolsýra, þurr jarðarberjakeimur og steinefni.  Tilvalið fyrir móttökur, garðveislur, pastarétti, grillaðan kjúkling og fisk.  Einkunn: 7,0 (1.798 kr)

Mouton Cadet Rose 2013
Rothschild-nafnið er eitt hið þekktasta í vínheiminum, og Mouton Rothschild er auðvitað flaggskip fjölskyldunnar og franskrar víngerðar.  Mouton Cadet-vínin hafa verið framleidd 85 ár og tilgangur þeirrar framleiðslu var að gera gæðavín frá Bordeaux aðgengileg fyrir almúgann á viðráðanlegu verði (hin vínin eru í dýrari kantinum, svo ekki sé meira sagt, og ekki á allra færi að kaupa þau).  Við þekkjum vel rauðvínið og hvítvínið í þeirri línu, en þau hafa verið fáanleg hér á landi um árabil og notið vinsælda.  Rósavínið í þeirri línu hefur kannski ekki notið sömu vinsælda, ekki frekar en önnur rósavín, en það á alveg skilað að rata í fleiri munna en það hefur gert hingað til.  Þetta vín er gert úr hefðbundinni Bordeaux-blöndu – Merlot, Cabernet Sauvignon og Cabernet Franc, að sjálfsögðu með saignée-aðferðinni.  Það er ljósbleikt á lit, með ilm af hindberjum og jarðarberjum, vægum eikarilm. Í munni er það þurrt, sem sama keim af jarðarberjum og hindberjum, einnig smá smá steinefni og vatnsmelóna og jafnvel vottur af hunangi. Prýðilegt vín. Einkunn: 7,0 – góð kaup (1.974 kr)

Vinir á Facebook