Enn eitt nammið frá Argentínu

Það er að verða nær skothelt val að velja rauðvín frá Argentínu, einkum ef Malbec eða Merlot frá Mendoza-héraði verða fyrir valinu.  Það á líka við um vínin frá Alamos.  Þessi víngerð í Mendoza-héraði er í eigu Catena-fjölskyldunnar, sem framleiðir líka toppvín undir eigin nafni.  Alamos-vínin eru aðeins ódýrari en eru ekki mikið síðri, a.m.k. ekki þessi prýðilegi Alamos Merlot 2013 sem ég smakkaði um daginn.  Vínið er mjög dökkt á lit, virðist nánast þykkt að sjá, unglegt með ágæta dýpt.  Í nefinu kemur mikill plómukeimur ásamt dökku súkkulaði, kryddum og eik.  Í munni finnur maður nánast sætan berjakeim, þétt tannín og góða sýru.  Við drukkum þetta vín með grilluðu nautakjöti og það passaði mjög vel.  Einkunn: 8,0 – góð kaup (2.198 kr).  Rauðvínin frá Alamos eru öll á sama verði og ég gef þeim góð meðmæli, sérstaklega Malbec (88 stig hjá Wine Spectator) sem og Chardonnayinu (2012-árgangurinn fær einnig 88 stig hjá Wine Spectator), sem er aðeins ódýrara (2.073 krónur).  Ég sakna einna helst að sjá ekki Alamos Torrontes Salta í Vínbúðunum, en það vín (2013) fékk 89 stig hjá Wine Spectator, sem er hæsta einkunn sem argentískur Torrontes hefur fengið.
 

Vinir á Facebook