Columbia Crest Two Vines Chardonnay

IMG_1663
Ég hef alltaf verið hrifinn af góðum amerískum Chardonnay.  Áður en ég flutti út til Svíþjóðar fyrir allmörgum árum keypti ég af og til Beringer Chardonnay og komst meira að segja yfir nokkrar Beringer Private Reserve Chardonnay, sem voru í miklu uppáhaldi hjá mér.  Því miður er langt um liðið síðan ég smakkaði góðan amerískan Chardonnay og þessi fínu Beringervín fær maður ekki í dag hér á Íslandi.  Það eru reyndar til önnur hvítvín frá Beringer en þau eru ekki í sama gæðaflokki.  Ég var líka alltaf hrifinn af vínunum frá Columbia Crest, sem lengi var einn að mínum uppáhaldsframleiðendum.  Merlot-inn og Cabernet Sauvignon gleymast seint, og Cabernet Sauvignon Reserve frá C.C. var valið vín ársins hjá Wine Spectator árið 2009.  Mér áskotnaðist nýlega eintak af Columbia Crest Two Vines Chardonnay 2010. Þetta er fallega strágult vín, sæmileg dýpt og ágætis taumar.  Í nefið kemur dálítið gras, nokkuð áberandi keimur af ferskjum og perum, jafnvel vottur af myntu (perubrjóstykur?).  Þægilegur berjakeimur í bragði, gott jafnvægi með passlegri sýru.  Ekki jafn smjörkennt og Chardonnay verður oft, en þetta vín hefur hins vegar ekki legið á eikartunnum og því laust við eikarbragð en missir að sama skapi smjörkenndina.  Fyrirtaks sumarvín sem óhætt er að mæla með, ræður vel við létta pastarétti, kjúkling og fisk.  Ég sé alveg fyrir mér að þetta vín sé í glasinu á heitum sumardegi þegar steikin er komin á grillið.  Einkunn: 7,5 – góð kaup! (2.398)

Vinir á Facebook