Annað gott lífrænt frá Spáni

Um daginn sagði ég frá hinu ágæta Beronia Vina Ecologica Rioja 2010, sem er eiginlega fyrsta almennilega lífrænt ræktaða vínið sem ég smakka.  Reyndar verð ég að viðurkenna að það var ansi langt síðan ég hafði þá áður smakkað vín með lífræna vottun og var þá lítið hrifinn.  Munurinn á þessu Beronia víni og því sem ég smakkaði áður er kannski sá að víngerðarmenn Beronia kunna auðvitað að búa til góð vín og því kannski ekki aðalatriðið fyrir þá að þrúgurnar séu lífrænt ræktaðar?
779872Þessa dagana er ég staddur í sænsku Dölunum, nánar tiltekið í Falun (eins og svo oft áður).  Ég rölti mér inn í vínbúðina (já, það er ein vínbúð í Falun, enda búa bara 38.000 manns í bænum og tæplega 60.000 í sveitarfélaginu – auðvitað þarf bara eina búð!) og var að leita að einhverju nýju og spennandi.  Það voru þó ekki mörg vín sem vöktu neinn sérstakan áhuga hjá mér og ég var næstum búinn að taka eina lífræna Beronia (öruggt val) en sá þá annað lífrænt vín frá Spáni, nánar tiltekið frá Penedes – Amaltea de Loxarel 2011.  Þetta vín er blanda Cabernet Sauvignon, Merlot og Tempranillo, er auðvitað unglegt að sjá en annars með nokkuð dæmigerðan „spænskan lit“ (getur maður sagt það?).  Í nefið koma strax sólber, plómur og eik, en einnig mynta og vottur af súkkulaði.  Eikin er nokkuð áberandi í munninum, tannínin ekki of áberandi og gott jafnvægi í þessu vínu.  Eftirbragðið er ekkert óskaplega langt en samt nokkuð þægilegt.  Einkunn: 7,5 – Góð kaup.  Hentar vel með ostum.  Þetta vín held ég að myndi örugglega fara vel í landann og ég gæti alveg hugsað mér að hafa það sem húsvín…
Ég nefndi um daginn Advance-fréttasnepilinn frá Wine Spectator og taldi upp vín sem fást á Íslandi.  Eitt vín í þessu blaði sem ekki fæst á Íslandi er Churchill’s Estate Douro 2011 sem fær heila 93 punkta.  Þetta vín hefur verið að fá um 88 stig hjá WS undanfarin ár, og er fáanlegt á sérlistanum hér í Svíþjóð.  Þar sem það kostar ekki nema 123 SEK (2.154 kr skv gengi dagsins hjá Landsbankanum – myndi væntanlega þýða tæpar 3.000 krónur út úr vínbúðum ÁTVR) ákvað ég að panta tvær flöskur.  Ég átti ekki von á þeim fyrr en í lok næstu viku en þær eru nú þegar komnar inn á borð hjá mér, reyndar 2010-árgangurinn en ég er alveg sáttur við það.  Ég næ kannski að prófa aðra með Einari Brekkan í næstu viku…

Vinir á Facebook