Fleiri vín sem vert er að minnast á

Það styttist í útnefninguna á Víni ársins.  Í síðustu færslu taldi ég upp nokkur vín sem hlutu „honourable mention“ (líkt og hinir 9 í kjörinu á íþróttamanni ársins?).  Þessi vín áttu það öll sameiginlegt að þau eru nokkuð hagstæð í innkaupum, þ.e. kosta öll undir 3.000 krónum (eða þar um bil).  Það er þó ekki hægt að birta vín ársins án þess að nefna nokkur vín í efri verðflokkum sem er vel þess virði að fjárfesta í.

  • Isole e Olena Chianti Classico 2010 – ég held að ég hafi smakkað þetta vín í 2 eða 3 skipti á árinu en því miður hefur mér láðst að skrá það hér á síðuna.  Virkilega gott vín sem óhætt er að mæla með.
  • Domaine Faiveley Mercurey Clos des Myglands Premier Cru 2007 – Hin fullkomna tvenna: Lambalæri og þetta vín!
  • Émigré Barossa Valley 2005 – þetta vín sló í gegn á vínklúbbsfundi s.l. vor.
  • E. Guigal Chateauneuf-du-Pape 2004 – Ég prófaði þetta vín nú um helgina og var mjög sáttur við útkomuna (þurfti reyndar góða stund til að lifna við)
  • BriO Cantenac Brown 2008 – „Litla“ vínið frá Chateau Cantenac Brown er alls ekki svo lítið!
  • William Fevre Chablis 2010 – Þetta er eitt af mínum uppáhaldsvínum og hefði vel getað verið með á listanum í fyrri pósti, en nú er það líka fáanlegt sem kassavín (hver hefði trúað því? kostar reyndar um 10.000 og því langdýrasta kassavínið) – hreint ekki svo galin kaup!

Vín ársins verður svo útnefnt á morgun, gamlársdag…

Vinir á Facebook