Vín ársins á Vínsíðunni

Já, þá er komið að því að útnefna Vín ársins á Vínsíðunni.  Ég held að ég hafi fyrst gert þetta árið 2000 þegar Casillero del Diablo Merlot 1998 varð fyrir valinu.  Síðan hafa vín á borð við Tignanello og Purple Angel verið útnefnd sem vín ársins.  Eina skilyrðið sem ég hef sett er að vínið sé fáanlegt í íslenskum vínbúðum, síðan ræðast valið af samspili verðs, gæða og hins óskilgreinda X-þáttar, en hlutfall þessara þátta er óskilgreint og síbreytilegt.
Futures Shiraz Bottle 125x545
Í þetta sinn varð það nokkuð snemma ljóst hvaða vín myndi verða fyrir valinu.  Eftir að hafa smakkað vínið fyrst á vínklúbbsfundi (reyndar smakkað eldri árganga og verið ánægður með þá) hef ég lofað vínið í hástert (kannski ekki mikið hér á síðunni) og held því áfram með þessari útnefningu.
Á vínklúbbsfundinum hlaut vínið þessa umsögn: „Dökkt og fallegt vín, talsverður þroski og góðir taumar. Í nefinu mynta, kókós, kaffi, plómur, súkkulaði og jafnvel hnetu. Margslungin lykt. Í munni er það þétt og kröftugt, gott jafnvægi,  dálítið kryddað, með vott af jarðarberjum og kaffi.  Einkunn: 93 stig“
Vín ársins 2013 á Vínsíðunni er Peter Lehmann Futures Shiraz 2009.  Verð: 2.999 kr.

Vinir á Facebook