Vín ársins – niðurtalning

Ég hef í rúman áratug útnefnt Vín Ársins á Vínsíðunni, en þó verður að viðurkennast að stundum hefur útnefningin fallið niður þegar ákveðin lægð hefur verið á starfseminni (líkt og lesendur hafa kannski orðið varir við undanfarinn mánuð).
Ég hef litið um öxl og skoðað þá víndóma sem birst hafa hér á síðunni á árinu 2013 (hef reyndar ekki talið þá) en fjarri lætur að öll vín sem ég hef smakkað á árinu hafi ratað hér inn á síðuna (sennilega ekki nema tæplega helmingur). Lofa ég hér með bót og betrun á næsta ári (líkt og svo oft áður…).
Á árinu hef ég náð að smakka fjölda ólíkra vína, allt frá hinu portúgalska Alianca Foral til hins ástralska Wynn’s Coonawarra Michael Shiraz, og frá hinu franska Willm Pinot Gris til hins þýska Markus Molitor Wehlener Sonnenuhr Riesling Auslese** 2005. Einkunnir hafa verið allt frá falleinkun og upp í 10.
Í þetta sinnið ætla ég að hafa þann háttinn á að nokkur vín fá s.k. „honourable mention“ en eitt hlýtur titilinn Vín ársins 2013. Vínin eru öll fáanleg á Íslandi og flest þeirra í almennri sölu (ekki bara í þeim systrum Heiðrúnu og Kringlu).

  • Cloudy Bay Marlborough Chardonnay 2011 – Mjög gott og aðgengilegt chardonnay frá Nýja-Sjálandi sem flestum ætti að falla í geð, á verði sem flestir ættu að ráða við.
  • Antinori Santa Cristina Toscana 2011 – Gamall vinnuhestur frá Toscana sem hefur verið í hillum Vínbúðanna frá ómunatíð.  Þetta árið er einstaklega gott og hér er maður virkilega að fá mikið fyrir peninginn (kostar innan við 2.000 krónur)
  • Peter Lehmann Clancy’s Barossa 2009 – Ekta nýja-heimsvín, vöðvastinnt og öflugt – smellpassar með grilluðu nauti.
  • Alianca DAO Reserva 2009 – Enn eitt dæmið um gæðavín sem eru að koma frá Portúgal, þar sem vínframleiðsla hefur tekið gríðarlegum framförum undanfarin ár.  Verðið spillir heldur ekki fyrir (kostar innan við 2.000 krónur).
  • Concha y Toro Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon 2010 – Annað vöðvastinnt vín úr nýja heiminum, að þessu sinni frá Chile.  Nautavín af bestu gerð.
  • Montes Alpha Chardonnay 2011 – Nýja-heims chardonnay sem er að reyna að vera Chablis og tekst það bara ágætlega.  Hæfileg eik og nóg af smjöri – bíður bara eftir humrinum!
  • Georges Duboeuf Beaujolais Moulin-A-Vent 2011 – Kannski óvæntasta vínið á þessum lista, því Beaujolais-vín hafa kannski ekki verið að gera það neitt sérstaklega gott undanfarin ár – sennilega mest vegna fordóma sem tengjast Beaujolais Nouveau.  Hér er hins vegar alvöru rauðvín á ferðinni sem flestum ætti að líka við – líka buddunni.
  • Chateau Carbonnieux Pessac Leognan 2007 – Þrusugott vín frá einu af „óæðri“ héruðum Bordeaux en tekur þó aðeins í budduna.  Þetta vín hlaut reyndar enga sérstaka dóma úti í heimi en Vínklúbburinn var mjög ánægður og árgangurinn í hillum vínbúðanna (2010) á að vera miklu betri…

Athugið að þetta eru ekki endilega bestu vínín sem ég smakkaði á árinu 2013 (og kannski langt frá því).  Hins vegar eru þetta allt vín sem teljast vera mjög góð kaup og á flestra færi.  Ef vín ársins ætti alltaf að vera besta vínið sem maður smakkar á hverju ári þá er nokkuð gefið að þar færu alltaf dýr og vandfundin vín sem maður leyfir sér að jafnaði ekki að kaupa nema kannski 1-2 sinnum á ári.
Vín ársins verður svo útnefnt á Gamlársdag.

Vinir á Facebook