Rifjaveisla Keizarans

Ég er staddur í Falun þessa vikuna – er venjulega 2 vikur í senn og um helgarnar skrepp til Keizarans og dvel þar í góðu yfirlæti.  Við reynum alltaf að gera okkur glaðan dag, elda góðan mat og drekka góð vín og síðasta helgi var engin undantekning.
Á föstudeginum grilluðum við kjúklingabringur vafðar inn í Serrano-skinku og bárum fram með grilluðu grænmeti og halloumi-osti.  Með þessu drukkum við Schloss Vollrads Riesling sem passaði vel með.
Crognolo2010Á laugardeginum var svo rifjaveisla og ákvað ég að elda rifin með minni nýju uppáhaldsaðferð (2 tímar í ofni og svo á grillið).  Ég gerði reyndar ekki kryddblönduna úr þeirri uppskrift (líkt og ég var búinn að lofa mér að gera) en treysti þessi í stað á Caj P Hickory Smoke grillolíu og það var ekki svo galið.  Með þessu drukkum við Sette Ponti Crognolo 2010 og þar er sko alvör vín á ferð.  Ég kynntist þessu víni fyrst í hinum magnaða 2007-árgangi sem lenti í 30. sæti á topp 100-lista Wine Spectator. Síðasta flaskan mín úr þeim árgangi kláraðist í vetur og það var því kærkomin sjón að sjá þessa flösku í hillum Systembolaget í Gränby Center í Uppsala.  Þetta vín er blanda Sangiovese (80%), Merlot (10%) og Cabernet Sauvignon (10%), flokkast sem IGT og er s.k. Súper-Toskani.  Vínið er dökkt og fallegt í glasi, góð dýpt en ekki mikill þroski kominn í það.  Í nefið koma dökk kirsuber, kryddjurtir (smá mynta, timjan), plómur, sólber og jafvel vottur af súkkulaði.  Fyllingin er góð, hæfileg tannín og sýra sem vegur upp á móti þeim, eftirbragð sem situr vel – vel gert vín.  Einkunn: 8,5.
Ég pantaði líka nokkrar flöskur af Brancaia Tre 2011 sem ég er að vonast til að skili sér fyrir helgi því ég fer heim til Íslands á laugardaginn.  2007-árgangurinn er legendarískur hjá mér og mínum og þó að 2011 eigi ekki að vera í sama standard þá hefur hann hlotið góða dóma og lofar góðu.  Ég reikna þó ekki með að flytja mikið af þessu með heim til Íslands en er að vinna að því að eitt vínumboðið á Íslandi taki þetta vín í umboðssölu og flytji inn.  Vona bara að það takist því vínin frá Brancaia eru alveg frábær.

Vinir á Facebook