Hin fullkomnu svínarif

Í byrjun mánaðarins brá ég mér til Bandaríkjanna á ráðstefnu.  Við ferðafélagarnir vorum á einu máli um það, að offituvandi bandaríkjamanna stafi ekki bara af því að allir skammtar séu allt of stórir og maturinn of óhollur, þvi allur matur sem við fengum var hrikalega góður og auðvelt að borða allt of mikið af honum.  Hvað um það – á heimleiðinni greip ég með eintak af tímaritinu Food & Wine, m.a. vegna þess að eintakið fjallaði aðallega um grill en líka vegna þess að á forsíðunni var mynd af mjög girnilegum svínarifjum (ég er ákaflega veikur fyrir svínarifjum…).  Um helgina prófaði ég svo að elda svínarif á þann hátt sem býr að baki forsíðumyndinni – kjötið marinerað í nokkra klukkutíma, bakað í ofni við 160 gráður (lögð álfilma yfir) og síðan á að grilla kjötið í 15 mínútur á meðan það er penslað með glasseringu/grillsósu.  Óhætt er að segja að þetta er besta eldunaraðferðin sem ég hef prófað þegar svínarif eru annars vegar – rifin voru mjög safarík og djúsí.  Næst held ég að ég stígi skrefið nánast til fulls og kryddi á sama hátt og gert er í þessari grein.
Kryddblanda:

  • 2 msk kóríanderfræ
  • 1 tsk þurrkaður appelsínubörkur
  • 1/4 bolli púðursykur
  • 2 msk chiliduft
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • Salt og nýmalaður svartur pipar

Kjötið látið marinerast yfir nótt í ísskáp.  Eldað eins og áður er lýst og þegar á grillið er komið er það penslað með eftirlætis grillsósunni þinni. Með þessu drekkur maður annað hvort góðan bjór (t.d. Úlfur nr. 3 IPA) eða argentískt rauðvín, t.d. Amalaya Colomé 2010 (2.299 kr)

Vinir á Facebook