Slippurinn og Stuðmenn

Það hefur verið nóg að gera hjá okkur hjónunum eftir flutninginn heim til Íslands, en nú er allt að komast í rétt horf og hægt að snúa sér að öðru en að taka upp úr kössum!
Á föstudag fórum við á Slippbarinn sem er í nýja Icelandair-hótelinu þar sem Slippurinn var forðum daga (reyndar sýndist mér að það væri ennþá einhvers konar starfsemi af þeim toga við hlið hótelsins). Félag þvagfæraskurðlækna var þar með aðalfund og á eftir var snæddur kvöldverður í Slippbarnum, en svo heitir veitingastaðurinn á hótelinu. Það var sjávarréttaþema á matseðlinum – boðið upp á einhvers konar sjávarréttasalat áður en forrétturinn, saltfiskbaka, var borinn á borð. Með þessu var boðið upp á Turning Leaf Chardonnay, sem ég hafði ekki smakkað í meira en áratug. Það hefur svo sem ekkert verið dregið úr eikarkeimnum á þessum áratug en vínið gekk samt ágætlega með saltfiskbökunni.  Aðalrétturinn var catch of the day í pönnu, og að þessu sinni var það Langa sem var á boðstólum. Fiskurinn var alveg fyrirtak og með honum drukkum við austurrískt hvítvín, en ég náði ekki alveg nafninu á því (reyndar ekkert sem ég þekkti fyrir), prýðisgott vín sem passaði vel við fiskinn. Eftirrétturinn kallaðist guðdómlegt gums (marengs, þeyttur rjómi, salthnetur, súkkulaðirúsínur og ber) – ágætt gums en kannski ekki alveg guðdómlegt. Þjónustan á staðnum var hins vegar ekkert til að hrópa húrra fyrir, sérstaklega ekki þegar þeir blanda saman ólíkum vínum í glasið hjá manni!
Í gær eldaði ég Civet de Mouton, sem er nokkurs konar boeuf de bourguignon þar sem notað er lambakjöt í stað nautakjöts. Að þessu loknu fórum við í Hörpuna þar sem Stuðmenn voru með magnaða tónleika!

Vinir á Facebook