Vínklúbbsfundur

Ég komst loksins á vínklúbbsfund um daginn (reyndar fyrir rúmum mánuði, en vegna anna hef ég ekki komið fundargerðinni inn fyrr en nú).  Það var góð mæting á fundinn, allir þeir sem búsettir eru á landinu, að einum frátöldum, komu á fundinn.  Stemningin var fín og fundarstjórarnir Eiríkur S. og Gutti voru með fantagóð vín á boðstólum.

Fyrst prófuðum við Piccini Villa Al Cortile Rosso Di Montalcino 2008 (Toscana, Ítalía) – Flottur litur, miðlungs dýpt, byrjandi þroski.  Í nefinu blómalykt, útihús, svolítið púrtvín. Mikið tannín, ferskur ávöxtur, það er skrokkur í því, ekki mikið jafnvægi, sæmilega kröftugt.  Matur: ostar, jafnvel pasta. Einkunn: 82/100.

Næst kom gamall kunningi – Muga Rioja Reserva 2008 (Rioja, Spánn) – Ágætis dýpt, ungt vín. Í nefinu kakó, pipar, kaffi, einhver berjalykt jafnvel hindber. Fínt jafnvægi, tannín, talsverður þéttleiki. Einkunn: 87/100.
Þá kom dúndurgott Rónarvín, Paul Jaboulet Aíné Cóte Rótie 2009 (Rhone, Frakkland) – Dökkur litur, góður byrjandi þroski, ekki mjög djúpt.  Í nefinu niðursoðin jarðarber, negull, franskt brauð.  Munnur: Gott jafnvægi, þétt og agressíft vín, gott eftibragð, pipar, negull, súkkulaði. Matur: sver steik. Einkunn: 90/100.

Þá var röðin komin að stóru vínunum og óhætt að segja að hér hafi fundurinn færst upp á annað plan, enda nokkur stigsmunum á þessum vínum og hinum fyrri.
Chateau Clinet Pomerol 2001 (Bordeaux, Frakkland) – Ágætis þroski, ryð í röndinni, dökkt og mikið vín, mikil dýpt. Í nefinu mikið kaffi, vanilla, útishús, jarðaber, mikill ávöxtur. Gott jafnvægi, léttleiki, kröftugt, mikið eftirbragð, langt eftirbragð. Einkunn: 94/100.
Næsta vín hefur goðsagnakenndan status hjá meðlimum vínklúbbsins, hið eina sanna Wynn‘s Michael Shiraz 1998 (Coonawara, Ástralía) – Ryðrautt, mikill þroski, mikil dýpt.  Í nefinu ávöxtur, kirsuber, vanilla, lakkrís, mynta, súkkulaði. Í munni plómur, mikill ávöxtur, dansandi eftirbragðið, gríðalegt jafnvægi. Einkunn: 98/100
Lokavínið var svo Búrgúndarvín – Joseph Dauphin Chambertin-Clos De Béze  2004 (Bourgogne, Frakkland) – Ryðguð rönd, mikill þroski, mikil dýpt. Í nefinu mikið útihús, vanilla, kaffi, kókómalt, mikið leður, sólber. Í munni mikið jafnvægi, mjög samfellt, fín sýra, þroskað, smá tannín, þolir meira. Einkunn: 99/100
Frábær fundur og virkilega gaman að vera kominn aftur í hópinn.  Um næstu helgi er svo árshátíð vínklúbbsins og ég hlakka verulega mikið til hennar, enda hafa fyrri árshátíðir verið legendarískar!

Vinir á Facebook