Vín Ársins 2011

Þegar velja skal vín ársins er ýmislegt sem þarf að hafa í huga – verð, gæði, framboð o.s.frv.  Þar sem Vínsíðan er skrifuð á íslensku og fyrir íslenska vínáhugamenn er einnig æskilegt að vín ársins sé fáanlegt á Íslandi og þá vandast valið, því ég hef ekki aðgang að öllu því sem er fáanlegt á Íslandi, ekki frekar en að lesendur síðunnar sem búsettir eru á Íslandi hafi aðgang að öllum þeim vínum sem ég skrifa um.
Það hvítvín sem ég varð hrifnastur af á árinu 2011 er án efa hið austurríska Leth Gruner Veltliner 2010, og rauðvín sem féllu í kramið eru m.a. Campo Viejo Crianza 2007 og Poggio al Tesoro Bolgarello 2009, en öll þessi vín urðu húsvín hjá mér á árinu 2011.
Það vín sem að lokum stendur upp úr fyrir verð og gæði, ásamt því að vera fáanlegt bæði í Svíþjóð og á Íslandi er hið argentínska Catena Zapata Malbec Mendoza 2008. Vínið hefur góðan keim af kirsu- og bláberjum, kryddi og eikartónum, er í góðu jafnvægi og endist vel.  Vínið fékk 90 stig hjá Wine Spectator og þó svo að þessi árgangur hafi ekki náð inn á topp-100 listann líkt og 2007 og 2009 þá er óhætt að mæla með þessu víni.  Argentínsk víngerð hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár og þaðan kemur nú fjöldi gæða vína á góðu verði.  Það er varla hægt að bera saman argentínsk vín í dag við þau sem okkur buðust fyrir 10 árum, slíkar hafa framfarirnar verið, og líklegt að fleiri gæðavín frá Argentínu eigi eftir að rata í hillur vínbúðanna á næstu árum, flest á mjög góðu verði.
Vín ársins 2011 á Vínsíðunni er Catena Zapata Malbec Mendoza 2008!

Vinir á Facebook