Jólabjórinn kominn (og prófaður)

Jólabjór á sér langa sögu og hefð, einkum á Norðurlöndum.  Heimildir eru frá víkingatímanum að bruggaður hafi verið mjöður fyrir blótin þrjú (haust-, vor- og miðsvetrarblót) – á þessum tíma var ekki hægt að geyma mjöðinn lengi vegna þess að hann súrnaði og því var bruggað fyrir hverja hátíð.  Þegar löndin svo tóku kristna trú var haldið áfram að halda veislu þegar veturinn var sem myrkastur, en nú var hátíðin tileinkuð fæðingu Frelsarans í stað þess að tileinka hana hinum heiðnu guðum.  Enn í dag er bruggaður sérstakur jólabjór, sem jafnan er mun dekkri en hefðbundinn bjór.
Á Íslandi eru nú 21 tegund af jólabjór fáanlegar í vínbúðum ÁTVR, 45 tegundir í Systembolaget. Á Íslandi er enginn sænskur jólabjór fáanlegur að þessu sinni, en hér í Svíþjóð er Jólabjór frá Brugghúsinu Ölvisholti fáanlegur í fjölmörgum vínbúðum.  Ég skrapp í vínbúðina mína í gær og keypti þrjár tegundir – áðurnefndan Jólabjór frá Ölvisholti, Oppigårds Winter Ale (úr Dölunum hér í Svíþjóð) og Nisse Julöl (frá Slottskällan í Uppsölum).  Íslenski jólabjórinn vakti ákveðin vonbrigði – aðeins of beiskur og rammur fyrir okkar smekk.  Nisse og Winter Ale eru hins vegar nokkuð góðir og erfitt að gera upp á milli þeirra.
Ég er á leiðinni til Falun í kvöld og næ kannski að prófa eina eða tvær tegundir til viðbótar þarna uppfrá.

Vinir á Facebook