Engillinn og steikin

Jæja, þá er síðasta sumarfrísvikan á enda (í bili, fæ eina viku til viðbótar í ágúst).  Við ætluðum að vera í Gautaborg þessa viku en þar sem bíllinn bilaði varð lítið úr því.  Við skelltum okkur því til Stokkhólms í staðinn og fórum í Gröna Lund, sem er tívolíið í Stokkhólmi.  Smáfólkið var nokkuð ánægt með þá ferð, þó það hafi verið pínulítil vonbrigði að fá ekki að gista í tjaldi (reyndar er Gothia Cup í Gautaborg þessa viku og því ekki víst að það hafi verið mikið pláss eftir á tjaldstæðum í Gautaborg).
Við fullorðna fólkið vildum líka fá smá sárabót og ákváðum því að grilla og taka gott vín út úr kælinum.  Útkoman varð grilluð Entrecote og með því drukkum við Montes Purple Angel 2004.  Þetta er hreint út sagt frábært vín, aðeins farið að þroskast, með hnausþykkri angan af kirsuberjum og dökku súkkulaði, ásamt ögn af amerískri eik og pipar.  Í munninn fær maður nóg af mjúkum tannínum, sama súkkulaði- og kirsuberjakeim, mikil fylling og laaaangt eftirbragð.  Einkunn: 9,0 – Góð Kaup! Keizarinn, sem var í mat ásamt fjölskyldu sinni, kom með Chateau de Caraguiles 2005 (vona að ég stafi þetta rétt), sem er frá Corbier í Frakklandi.  Það stóð sig furðu vel á eftir englinum, mjúkur berjakeimur og þægileg tannín ásamt þokkalegu eftirbragði.  Einkunn: 7,5.
Engillinn stóð vel undir væntingum og ég bíð spenntur eftir 2007-árgangnum sem bíður í kælinum mínum…

Vinir á Facebook