Villibráðarveisla veðurfræðingsins

Um síðustu helgi vorum við boðin í villibráðarveislu í saumaklúbbnum hennar Guðrúnar.  Óli veðurfræðingur sá um kjötið – grillað hreindýr og gæs – og ég verð að segja að betri villibráð hef ég varla fengið!  Kjötið var svo meyrt að maður hefði nánast getað borðað það með skeið!  Kristó var maðurinn á bak við skötuselinn sem var marineraður og grillaður á teini.  Nonni kom með grænfóðrið og það kom allt úr garðinum hans uppi á Skaga.  Kalli sá um eftirréttinn og Doddi lagði til húsnæði.  Ég kom með vínið og bauð upp á Montes Alpha Cabernet Sauvignon 2007 og Beringer Napa Valley Sauvignon Blanc 2007.  Montes Alpha var ávaxtaríkt (sólber og kirsuber), sæmilega tannískt með mjúkri eik, frísklegt og féll vel að grillaðri villibráðinni.  Einkunn: 7,5 – Góð Kaup! Beringer var frísklegur með góðum sítrus- og ananaskeim.  Ágætis fylling og gott eftirbragð.  Smellpassaði við skötuselinn.  Einkunn: 7,5 – Góð Kaup!
Af ýmsum ástæðum náðum við ekki að heimsækja alla þá sem við ætluðum að heimsækja í þessari Íslandsheimsókn og allir þeir sem eiga í hlut eru beðnir velvirðingar á því – við bætum úr því næst!
Nú er ég kominn heim í hitabylgjuna og tekinn til við nýjungina sem ég tók upp á í fyrra – bjórsmökkun!  Ég er búinn að kaupa ýmsar nýjar tegundir, þar á meðal ýmislegt sem mér myndi annars aldrei detta í hug að prófa.  Nánar um það síðar.

Vinir á Facebook