Gúrkutíð

Það hefur verið hálfgerð gúrkutíð hjá mér að undanförnu og lítið um vínprófanir frá því að engillinn góði var tekinn upp.  Ég var að vinna í Falun alla síðustu viku þar sem ég smakkaði reyndar eitt gott rauðvín.  Ég fékk mér glas af Gnarly Head Zinfandel 2008 og það var bara skrambi gott.  Gott berjabragð með smá súkkulaði og pipar, vottur af amerískri eik.  Ágætis kaup – kostar 90 SEK í systeminu og tæpar 2000 krónur í ÁTVR.
Ég var svo á vakt alla helgina og svo sem nóg að gera þar.  Svo átti hún Guðrún mín afmæli á sunnudaginn og eftir að hafa horft á Julie & Julia á laugardagskvöldið langaði okkur mikið í mat að hætti Julia Child og ákváðum að elda Boeuf Bourgignonne á sunnudeginum.  Við komumst fljótt að því að þetta er svona réttur að það tekur eiginlega tvo daga að elda hann ef vel á að vera, þar sem kjötið er græjað daginn áður.  Uppskriftin sem við notuðum var fengin frá Thomas Keller sem rekur The French Laundry í Kaliforníu, en sá staður þykir einn sá flottasti þar í landi.  Uppskriftin var í sjálfu sér ekki flókin en mikil vinna í henni, kannski aðeins of mikil!  Rétturinn tókst hins vegar mjög vel og við vorum ánægð með útkomuna (ákváðum reyndar smá breytingar ef við gerum þetta aftur!).  Svo gerði ég franska súkkulaðiostaköku í eftirrétt og það var engin smá kaka, þó hún væri í raun sáraeinföld – alveg gríðarlega creamy og ljúffeng.
Ég hef svo aðeins verið að fletta í nýjasta Wine Spectator, sem að þessu sinni fjallar um veitingastaði fyrir vínáhugafólk.  Að þessu sinni er enginn íslenskur staður með á listanum, en það er svo sem vel skiljanlegt á þessum síðustu og verstu tímum, því það kostar bæði tíma og peninga að komast á listann (veitingahúsin borga fyrir að vera með, og listinn er ekki alveg skotheldur, því eins og frægt er orðið komst einn staður inn á listann fyrir tveimur árum, en sá staður var í raun aðeins hugarburður blaðamanns eins og ekki til í alvörunni).  Mér finnst reyndar skemmtilegast að renna yfir listann aftast í blaðinu þar sem allir víndómarnir eru.  Ég reyni alltaf að sjá hvort það séu einhver áhugaverð vín sem eru fáanleg á Íslandi og/eða í Svíþjóð.  Að þessu sinni fann ég ekkert spennandi sem er fáanlegt á Íslandi en í Svíþjóð fann ég 3 vín og pantaði 2 tegundir áðan: William Févre Chablis Domaine 2008 (á 169 SEK – pöntunarnúmer 87642, og Lammershoek Roulette Rouge 2006 á 137 SEK – pöntunarnúmer 83586).  Ég fæ þetta líklega í næstu viku og get þá greint nánar frá þeim…

Vinir á Facebook