Gluggað í Vínblað ÁTVR

Ég kíkti í Vínbúðina í Skeifunni um daginn – ætlaði að ná mér í smá bjór áður en fótboltinn byrjaði.  Það var fróðlegt að skoða í hillurnar þarna og margt áhugavert að sjá.  Meðal annars sá ég að þar er hægt að kaupa Joseph Drouhin Chablis Les Clos, sem er eitt af mínum uppáhaldshvítvínum, ekki vegna þess að ég drekki það svo oft, heldur að það er eitt af bestu vínunum sem ég hef nokkurn tíma prófað.  Það kostar að vísu skildinginn – tæpar 9 þúsund krónur – en mér finnst það í raun ekki hátt verð fyrir þetta frábæra vín.  Það freistar líka mjög að kippa með einni eða tveimur flöskum þegar ég fer heim!
Ég náði mér líka í Vínblaðið til að geta í ró og næði skoðað það sem er á boðstólum.  Ég sé að það  á t.d. að vera hægt að kaupa Cos d’Estournel fyrir tæpar 17.000 krónur, en ég keypti mér flösku af 2005-árgangnum fyrir1800 sænskar krónur (rúmar 30.000 krónur!).  Hins vegar veit ég ekki hvort þar er sami árgangur á ferð.  Það sem mér finnst samt merkilegast er sú staðreynd að Chateau d’Yquem er til í reynslusölu!!! Þetta margfræga sætvín kostar yfirleitt fúlgur fjár, en í Vínbúðunum kostar hálfflaskan “aðeins” 14.291 krónur! Þar er reyndar um að ræða 1991-árganginn sem þykir varla í meðallagi góður, hlaut “bara” 88 stig hjá Wine Spectator.  Purple Angel er svo þarna á listanum fyrir minna en 5.000 krónur…
Í blaðinu er líka listi yfir söluhæst vínin í Ríkinu árið 2009.  Af rauðvínum á flöskum er Trivento Cabernet-Merlot orðið söluhæsta vínið, en það var í 80. sæti árið 2008!  Annars eru þetta mest sullvín á borð við Sunrise sem tróna efst á rauðvínslistanum og ekki fyrr en komið er í 5. sæti að maður sér almennilegt vín (Montecillo Crianza).  Fólk virðst yfirleitt vera að kaupa sömu tegundirnar ár eftir ár, því það eru ekki miklar hreyfingar á þessum listum.  Mest selda kassarauðvínið er Drostdy Hof Cape Red, kassahvítvínið er Moselland Riesling Kabinett og flöskuhvítvínið Ars Vitis Riesling.
Meira um þetta þegar ég er búinn að fara í verslunarferð.

Vinir á Facebook