Vínsíðan 10 ára!

Vínsíðan heldur upp á 10 ára afmæli sitt um þessar mundir.  Á þessu tímabili hefur síðan gengist undir ýmsar breytingar.  Í fyrstu var slóðin www.vortex.is/~vinsidan, síðan vinsidan.vortex.is en síðastliðin 7 ár hefur slóðin verið www.vinsidan.com.
Þegar síðan var fyrst sett út var hún einföld HTML-síða þar sem allt var forritað beint í HTML.  Síðan setti ég upp einfaldan gagnagrunn til að spara mér forritunarvinnu og auðvelda uppfærslur.  Þannig var síðan í nokkur ár þar til ég færði hana yfir á PHP-Nuke.  Það kerfi var notað í u.þ.b. 2 ár en þegar ruslpósturinn fór að hrúgast inn og tölvuþrjótar að brjótast inn á síðuna gafst ég upp og færði mig yfir í WordPress sem ég hef notað síðan þá.  WordPress er það kerfi sem hefur gefist best, er einfaldast í notkun og auðveldar uppfærslur og innsetningu nýrra greina.  Ég er þó ekki alveg sáttur við útlitið á síðunni og hef því verið að prófa ýmis konar þemu án þess að hafa fundið það rétta.  Þar til ég rekst á/hanna útlit sem ég vil hafa mun hún halda núverandi útliti.
Það sem hins vegar hefur vantað á síðuna eftir að ég færði mig yfir í WordPress er listi yfir þau vín sem ég hef prófað og þá einkunn sem þau hafa hlotið.  Ég ætla því á næstunni að fara í gegnum gamlar færslur og setja upp lista þar sem hægt er að sjá þau vín sem hafa verið dæmd og hlotið einkunn.  Sjálfsagt á ég eftir að fara í gegnum nokkrar útfærslur á því áður en ég kemst að endanlegri niðurstöðu!  Ef til vill mun ég aftur taka upp þann sið að útnefna vín mánaðarins, en það var fyrst gert í nóvember 1999.
Þá hefur ég einnig verið að vinna að handbók Vínsíðunnar sem ég hafði hugsað mér að gera aðgengilega á síðunni til að fagna 10 ára afmælinu.  Ég vonast til að geta lokið við bókina í ágúst og kannski sett hana út í september.
Ef lesendur hafa óskir um fleiri lagfæringar eða tillögur að nýjum atriðum eru allar athugasemdir vel þegnar.

Vinir á Facebook