Gamall vinur á ferð

Í gær var hefðbundin íslensk föstudagsmáltíð á borðum hjá okkur (kannski pínu gamaldags en þó klassísk) – grillaður kjúklingur með frönskum, salati og kokteilsósu (sósa og salat segja dætur mínar sem nú eru heillaðar af gömlu Stuðmanna-myndinni „Með allt á hreinu“, einkum laginu „Franskar (sósa og salat)“). Með þessu drukkum við Penfolds Koonunga Hill Shiraz Cabernet 2008.  Þetta er gamall vinur sem hefur litið við á svo til hverju ári s.l. áratug og rúmlega það.  Þetta er fallega rautt vín með sæmilega dýpt.  Áberandi súkkulaðiilmur ásamt angan af berjum og amerískri eik.  Gott jafnvægi, góð fylling og þægilegt eftirbragð.  Einkunn: 8,0 – Góð Kaup.
Annars hef ég verið að vinna að vínbókinni undanfarna daga, farið yfir gamlar færslur og er að safna saman gömlum víndómum, en ég stefni að því að allir víndómarnir verði með í bókinni (hvað er vínbók án víndóma?).
Á morgun förum við upp í Dalarna þar sem við munum dvelja í sumarbústað ásamt Keizaranum og fjölskyldu hans.  Að því loknu er sumarfríinu lokið…

Vinir á Facebook