Vín ársins 2008

Carmenére var talin útdauð í Chile eftir að rótarlúsin phylloxera barst þangað um 1880.  Árið 1993 fannst Carmenére þó aftur í Chile og það er enn sem komið er eina landið þar sem þrúgan er ræktuð í einhverju magni.  Á síðustu árum hafa komið fram mörg vín byggð á Carmenére, sum hver ansi mögnuð.  Þar á meðal er fjólublái engillinn frá Montes.  Þetta er nýtt vín sem strax með fyrsta árgangi skipaði sér í hóp bestu vína Suður-Ameríku.  Vínið er blanda Carmenére (92%) og Petit Verdot (8%) úr Colchagua-héraði og fær að þroskast 18 mánuði í nýjum tunnum úr franskri og amerískri eik.  Alveg hreint himneskt vín!
Vín ársins 2008 á Vínsíðunni er Montes Purple Angel 2005. Það er, líkt og nafnið gefur til kynna, nánast fjólublátt á lit, mjög dökkt og þétt að sjá.  Yndisleg angan af súkkulaði og kúbönskum vindlum.  Í munni gríðarlega tannískt en með góða sýru á móti, kryddað, gríðarlega þétt og elegant vín með dásamlegu eftirbragði sem endist allt kvöldið.  Geymist vel í 10-20 ár í kælinum!

Vinir á Facebook