Rosemount Estates Shiraz 2000

Shiraz er algengasta rauða þrúgan í Ástralíu og þekkt fyrir að gefa af sér krydduð og kraftmikil rauðvín. Shiraz þrífst best í þurru og heitu loftslagi, líkt og í Suður-Ástralíu og Nýja Suður-Wales.
Þrúgurnar í þessu víni koma einkum af ekrum í McLaren Vale og Langhorn Creek, en einnig eru sóttar þrúgur til Mudgee í Nýja Suður-Wales og Murray River Valley. Sumarið 2000 var heitt og þurrt í Ástralíu, en rigning í lok sumars olli því að uppskeran varð aðeins fyrr en í meðalári, en einnig ávaxtaríkari og kröftugri en í meðalári, ásamt því að uppskeran varð hin stærsta frá upphafi.
Þetta vín er framleitt í nokkrum áföngum, þ.e. hluti þess fékk að gerjast í hefðbundnum, opnum tunnum og gaf af sér áberandi en mjúkt vín með plómukeim, annar hluti gerjaðist í stáltönkum og var hrært vel í til að ná lit og bragði úr þrúgunum. Hluti vínsins fékk síðan lokagerjun í amerískum eikartunnum og vínið var síðan allt látið þroskast í amerískum eikartunnum í 6 mánuði áður en það var sett á flöskur.

Þessi árgangur er fallega rauður, unglegur, með líflegum plómu-, leður-, eikar- og kryddkeim. Ríkuleg tannín og sýra, góð fylling, mikill ávöxtur með mjúkum eikartónum og langt og þykkt eftirbragð. Vínið er vel til fallið til neyslu nú þegar en myndi launa vel allt að 6-8 ára geymslu.
Þetta er næstbesti árgangurinn af Rosemount Shiraz sem ég hef smakkað (aðeins 1997 var betri).
Vín mánaðarins í júní 2001.
Einkunn: 8,0 – Góð Kaup

Vinir á Facebook