Opus One 1996

Vín mánaðarins í maí 2000 er Opus One frá samnefndum víngarði í Napa í Kaliforníu. Það er samstarfsverkefni tveggja risa í vínheiminum – Robert Mondavi, eins frægasta víngerðarmanns í Kaliforníu, og Philippe de Rothschild baróns frá Chateau Mouton-Rothschild í Bordeaux. Fyrsta uppskeran leit dagsins ljós árið 1979 og kom á markað 3 árum síðar. Það þótti hið ágætasta vín og síðan hefur það sífellt farið batnandi og telst nú með bestu vínum heims og nú er komin í hús 20. uppskera þessa merka víns.

Margt hefur breyst í víngerðinni síðan Opus One fór á stjá og margar nýjungar hafa einmitt komið út úr þessu samstarfsverkefni. Opus voru t.a.m. fyrstu í Kaliforníu til að gróðursetja vínviðinn þéttar en áður hafði tíðkast (þeir þurftu svo að rífa hann allan upp vegna phylloxera-rótarlúsarinnar sem herjaði á vínviðinn) og víngarðurinn var sá dýrasti í sögu Kaliforníu. Þá hefur einnig lengst sá tími sem líður þar til hýði og hrat eru skilin frá safanum en þroskatími í eik aftur á móti styst. Þannig lá 1979 árgangurinn í 10 daga með hýði og hrati en 1996 árgangurinn í 37 daga. Opus ’79 var 24 mánuði í nýrri eik en Opus ’96 aðeins 19 mánuði.

Mjög dökkt og fallegt vín, djúpt en unglegt. Lyktin ríkuleg þar sem bregður fyrir sólberjum, blýanti, eik, örlar á sýru við þyrlun en þá kemur fram pipar, útihús (súrhey?), kaffi og ferskar perur! Margslungin og þétt lykt. Í munni er þetta hörkuvín, góð fylling, gríðarlega langt og gott eftirbragð – kaffi og leður, aðeins tannískt. Dæmigerður Bordeaux-stíll (Pauillac eða Pomerol). Franskara en fyrri árgangar.

Tímaritið WineSpectator setti 1996 árganginn í 2. sætið yfir 100 bestu vín ársins 1999, gaf því 96 stig – Cellar Selection – og þessa umsögn: „Bold, rich and leathery, with tiers of currant, mineral, spice and sage. A remarkably complex and deeply concentrated wine that’s potent while it strays into an earthier spectrum. Best from 2001 through 2009.“
Einkunn: 9,0

Vinir á Facebook