Niebaum-Coppola Francis Coppola Family Wines Chardonnay 1997

Francis Ford Coppola er einn af meisturum kvikmyndanna og hann er einnig að skipa sér sess sem einn af meisturum víngerðar í Kaliforníu með Rutherford Rubicon og Fjölskylduvínum Coppola. Fjölskylduvínin voru upphaflega aðeins ætluð vinum og vandamönnum Coppola en hafa verið í almennri sölu undanfarin ár. Hann keypti Inglenook-vínsetrið árið 1975, gamalt og gróið fyrirtæki sem mátti muna sinn fífil fegurri. Upphaflega var hann aðeins að leita sér að dvalarstað og afþreyingu á milli þess sem hann gerði kvikmyndir en fyrr en varði var hann kominn á kaf í vínframleiðslu undir nýju merki – Niebaum-Coppola (svæðið var áður í eigu Niebaum-fjölskyldunnar). Árið 1995 keypti hann svo það sem eftir stóð af Inglenook-vínekrunum og sameinaði á ný. Alls voru framleiddir 5.260 kassar af Chardonnay árið 1997, þ.e. 63.120 flöskur sem eru tölusettar. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að smakka flösku nr. 62.823 og ég var mjög ánægður.

Vínið er strágult og vel þroskað að sjá. Í nefið kemur nokkuð daufur eikarkeimur, sítrusávextir, perur og melónur – nokkuð einföld en ákveðin lykt. Vínið er í frábæru jafnvægi, frísklegt og með langt og gott eftirbragð. Tilbúið til drykkjar nú þegar en á samt mörg góð ár eftir. Fellur eins og flís við rass með Lúðu-rösti frá Kristófer í Gallerí Fisk!
Einkunn: 8,5

Vinir á Facebook