Concha y Toro Casillero del Diablo Merlot 1999

Vín mánaðarins í nóvember 2000 er Casillero del Diable Merlot frá Concha y Toro í Chile, en þetta er í annað sinn sem það er valið vín mánaðarins og í fyrsta sinn sem vín hlýtur þann heiður! Ég smakkaði þetta vín í fyrsta sinn í ársbyrjun 2000 og féll strax fyrir því. Vínklúbburinn gaf 1998 árgangnum einkunnina 8,5-9,0 og Bestu meðmæli sem er ansi gott fyrir vín sem kostar ekki nema rúmlega 1100 krónur!

Vínið kemur af ekrum Conca y Toro í Rapel-dal í Chile. Nafnið Casillero del Diablo (kjallari djöfulsins) fékk vínið af gömlum vínkjallara hjá Concha y Toro. Í byrjun 20. aldar bar nokkuð á því að verkamenn hnupluðu flöskum úr vínkjöllurum víngerðarmanna í Chile. Don Melchor Concha (annar stofnenda fyrirtækisins) hafði látið grafa djúpan kjallara þar sem fyrirtækið geymdi sín bestu vín. Til að koma í veg fyrir þjófnað sagði hann að sjálfur Djöfulinn héldi til í kjallaranum. Verkamennirnir þorðu ekki fyrir sitt litla líf að hætta sér ofan í kjallarann til að næla sér í flöskur. Þeir þorðu heldur ekki að fara með vínin þangað niður, svo að æðstu menn fyrirtækisins urðu sjálfir að bera þangað vín til geymslu!

Þetta vín er nokkuð dökkt, hefur ekki mikla dýpt, unglegt. Góður berjailmur, eik, kaffi, dálítill pipar, jafnvel lakkrís. Létt tannín, sýra þó aðeins yfir meðallagi, eftirbragðið kraftmikið og gott. Þetta er „ekta Diablo!“

Tímaritið WineSpectator gefur 1999 árgangnum einkunnina 85 – Best Buy og þessa umsögn: „Ambitious effort here, emitting lots of coffee and smoke aromas followed by a nice blast of raspberry sherbet character and a good, gutsy finish. A lot of wine for so few dollars. Drink now.“
Einkunn: 8,0

Vinir á Facebook