Lindemans Padthaway Chardonnay 1997

Vín mánaðarins í janúar 2000 er hið ljúffenga Padthaway Chardonnay 1997 frá Lindemans í Ástralíu. Þetta vín fæst í öllum verslunum ÁTVR og kostar tæpar 1600 krónur. Padthaway-vínekrurnar eru á svæði sem kallast Limestone Coast rúmlega 300 km suður af borginni Adelaide í Suður-Ástralíu. Þar er jarðvegur og loftslag svipað og í nágrannahéraðinu Coonawarra, sem er rómað vínræktarsvæði. Á sjöunda áratugnum hóf Lindemans vínrækt í Padthaway og varð þar með fyrsti vínframleiðandinn í Ástralíu sem hóf að rækta vínvið á þessu svæði, sem nú er að verða eitt af stærstu vínræktarsvæðum Ástralíu. Padthaway-vínekrurnar hafa síðan unnið til yfir 600 verðlauna á ýmsum vínhátíðum, þ.m.t. gullverðlaun á Konunglegu Vínsýningunni í Sidney 1998. Þessar miklu vínekrur, sem ná yfir rúmlega 540 hektara, gefa af sér einar bestu Chardonnay-þrúgur Ástralíu og árið 1997 var engin undantekning á því. Vínið er eingöngu gert úr Chardonnay-þrúgum og var látið þroskast í 10 mánuði í tunnum gerðum úr nýrri og 1-árs gamalli franskri eik áður en endanleg blöndun fór fram.

Vínið er fölgult og á því er daufgræn slikja. Ilmur og bragð einkennast af melónum og ferskjum umvöfðum sætum eikartónum. Vínið er þurrt en mjúkt. Eikin er sterk í bragðinu, en ananas, epli og perur, jafnvel hunang laumast fram í því og aðeins vottar fyrir kryddi. Eftirbragðið er langt og gott. Frábært vín, sem hæfir vel með góðum mat, s.s. sjávarréttum, ljósu fuglakjöti eða kálfakjöti. Vínið er tilbúið til neyslu nú þegar en mun eflaust batna enn frekar sé það geymt í 2-3 ár til viðbótar.
Einkunn: 8,5

Vinir á Facebook