Chateau Ste. Michelle Cabernet Sauvignon 1995

Vín mánaðarins í desember 1999 er hið afbragðsgóða Cabernet Sauvignon 1995 frá Chateau Ste. Michelle sem er í Washington-fylki í Bandaríkjunum. Þetta vín fæst eingöngu í Heiðrúnu, en vonandi verður gerð bragarbót á því fljótlega og þetta vín sett í almenna sölu, því að Íslendingar eiga svo sannarlega skilið að fá að kynnast þessu ljúffenga víni.

Víngarðarnir í Columbia Valley liggja í hlíðum Cascade Mountains sem veita þeim skjól frá regni og vindum, og þar er að jafnaði 200-250mm árleg úrkoma. Lágmarksúrkoma gerir vínræktendum kleift að nota áveitukerfi og ná hámarksgæðum þrúganna með nákæmri vökvunarstjórnun. Með því að takmarka vatnið snemma á vaxtartímanum þá beinir vínviðurinn orkunni frekar í þroskun þrúga en í vöxt laufblaða og greina. Vegna þess hve norðarlega Columbia Valley liggur, þá fá vínekrur þar rúmlega 2 klst meira af sólskini á degi hverjum en vínekrur í Kaliforníu. Þessar auka sólskinsstundir stuðla að meira sykurmagni í þrúgunum.

Víngerðin hefst með því að berin eru losuð af klasanum og kramin, og síðan er Prise de Mousse gersveppum bætt saman við. Gerjunin tekur rúma viku og er hrært í tvisvar á dag til að ná vel lit og bragði úr berjunum. Hluti þrúganna var látinn gerjast malolactic gerjun í tunnum. Þessi aðferð gerir vínið margslungið og gefur því mjúk og rífleg tannín. Vínið var síðan pressað varlega og sett í tunnur úr franskri (70%) og amerískri (30%) eik, þar sem það var látið þroskast í 16 mánuði.

Ilmur og bragð einkennast af sólberjum og svörtum pipar. Einnig vottar fyrir súkkulaði, vanillu og eikinni. Tannínin eru mjúk og eftirbragð þokkafullt og hæfilega langt.

Vinir á Facebook