Herdade do Rocim O Estrangeiro Tinto 2021

Portúgal er vissulega þekktara fyrir púrtvínin sín, en önnur víngerð hefur tekið miklum framförum þar undanfarna áratugi og hróður portúgalskra vína er farinn að berast til annarra landa. Í nýlegri samantekt James Suckling yfir bestu vín Portúgals árið 2023 fer vissulega mest fyrir púrtvínum, en í efsta sæti trónir þó rauðvín.

Dão hefur ekki verið það hérað sem kemur fyrst upp í huga manns þegar portúgölsk vín eru annars vegar. Dão er þó líklega það hérað sem hefur tekið hvað mestum framförum á síðustu árum og þaðan kemur nú hvert úrvalsvínið á fætur öðru. Reglurnar í Dão voru frekar stífar og hömluðu vínbændum, en þegar þeim var breytt árið 1989 fóru hlutirnir að gerast og fjárfesting í víngerð jókst verulega.

Vínhéraðið Dão liggur meðfram ánni Dão í norðurhluta Portúgals, sunnan við Douro. Jarðvegur er að mestu granít og vínviðurinn þarf að hafa nokkuð fyrir þrúgunum, en það þykir einmitt ákjósanlegt í víngerð. Aðalþrúgurnar eru Tinta Roriz (betur þekkt sem Tempranillo á Spáni), Touriga Nacional, Jaen og Alfrocheiro. Flest rauðvín eru blönduð úr þessum og öðrum staðbundnum þrúgum og það á einnig við um vínið sem hér er fjallað um, þar sem hlutföll þrúganna virðast vera nokkuð á huldu.

Herdade do Rocim O Estrangeiro Tinto 2021 er blanda nokkurra þrúga, sem að lokinni gerjun (í steyptum tönkum) er látið hvíla í 18 mánuði á frönskum eikartunnum. Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit, með ávaxtaríkan ilm af kirsuberjum, bláberjum, sólberjum, klettasalati, pipar, ferskum kryddjurtum, vanillu og eik. Vínið er þurrt, með ríflega miðlungs tannín, góða sýru og góða fyllingu. Eftirbragðið nokkuð þétt og heldur sér lengi, og þar má greina kirsuber, sólber, kryddjurtir, pipar, vanillu og eik. 92 stig. Góð kaup (5.950 á usavin.is). Þetta er vín fyrir góðar steikur – naut, lamb eða villibráð. 

Notendur Vivino gefa þessu víni (allir árgangar) 4,2 stjörnur í einkunn, en það eru of fáar umsagnir á bak við hvern árgang til að þeir fái eigin einkunn. Portúgalska vínsíðan Grandes Escholas gefur þessu víni 18/20 og Wine Enthusiast gefur 2020-árgangnum 93 stig.

Herdade do Rocim O Estrangeiro Tinto 2021
Góð kaup
Herdade do Rocim O Estrangeiro Tinto 2021 er vín fyrir góðar steikur - naut, lamb eða villibráð.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook