Georgía – vagga vínmenningar

Fyrir skömmu var ég svo heppinn að komast á Masterclass í Georgískum vínum. Námskeiðið var á vegum National Wine Agency í Georgíu og sendiráðs Georgíu í Kaupmannahöfn (sem þjónar einnig Íslandi). Á námskeiðinu fengum við að smakka nokkur vín frá Georgíu, þar sem áherslan var lögð á klassísk Georgísk vín. Til að átta sig á klassískum Georgískum vínum þarf að skoða þau nánar í sögulegu samhengi.

Sagan

Það er líklega ómögulegt að átta sig á því hvenær víngerð hófst í raun og veru. Sögulegar heimildir eru til um víngerð fyrir um 8.000 árum á því svæði sem nú eru Georgía, Armenía og Aserbaídjan (öll þessi lönd státa sig af því að vera vagga víngerðar). Sennilega hefur þetta allt byrjað fyrir tilviljun (eins og svo margar merkar uppgötvanir í sögu mannkyns). Vínberjasafi (ásamt hýði, stilkum og steinum) hefur verið geymdur í kerjum sem hafa verið grafin í jörð yfir veturinn. Að vori kom í ljós að safinn hafði breyst (gerjast) – and the rest is history, eins og gjarnan er sagt. Þetta hefur þó einkennt Georgíska víngerð fram til þessa. Pressaður vínberjasafinn er settur í stór leirker sem kallast Kvevri. Þessi ker eru grafin í jörðu og geymd þar í nokkra mánuði á meðan safinn gerjast. Kerin eru grafin í jörðu til að auka stöðugleika og styrk, því annars þola þau ekki þrýstinginn og brotna þegar þau hafa verið fyllt.

Kvevri-ker

Kerin eru þá grafin upp og víninu hellt á flöskur. Botnfallið er svo eimað og notað í brandí. Hvítvín sem eru gerð með þessari aðferð taka á sig meiri meiri lit en venjuleg hvítvín, því hvítvín eru almennt ekki látin liggja lengi á hýðinu. Vínin verða því gullin eða appelsínugul á lit.

Kvevri-ker í Georgísku vínhúsi

Auðvitað eru ekki öll Georgísk vín gerð með Kvevri-aðferðinni og stór hluti víngerðarinnar er nútímalegur.

Sovét-tíminn

Kommúnisminn og Sovét-yfirráð höfðu mikil áhrif á víngerð í Georgíu. Aðaláherslan var lögð á magn frekar en gæði, og framleiðslan var miðstýrð þar sem vínbændum höfðu lítið val um þrúguval og áherslur í víngerð. Framleiðslan var nánast eingöngu seld innan Sovétríkjanna. Georgísk vín voru eftirsótt innan Sovétríkjanna og þóttu betri en vínin frá Moldóvu og Úkraínu.

Við hrun Sovétríkjanna hrundi einnig markaðurinn fyrir Georgísk vín. Árin fyrir hrun voru líka erfið, því Mikhail Gorbatsjov (síðasti leiðtogi Sovétríkjanna) barðist af hörku gegn áfengisneyslu í Sovétríkjunum. Það tók nokkuð langan tíma fyrir Georgíska vínbændur að byggja upp nýja markaði, margir gáfust upp og snéru sér að annarri ræktun og öðrum störfum. Þeir sem þraukuð gátu nú farið að einbeita sér að því að bæti gæðin, því það gefur auðvitað betra verð fyrir afurðina. Stærstu markaðir Georgískra vínbænda eru enn í þeim löndum sem tilheyrðu Sovétríkjunum – Rússlandi, Úkraínu, Kazakstan og Belarús. Þeir hafa líka verið að hasla sér völl í Kína, Bandaríkjunum og ríkjum Evrópusambandsins.

Þrúgurnar

Í Georgíu má finna mörg hundruð mismunandi þrúgur, sem flestar er lítt þekktar annars staðar í heiminum. Þekktastar eru líklega Saperavi, Mukuzani, Aleksandrouli (rauðar þrúgur), Mtsvane, Tsolikouri og Rkatsiteli (hvítar þrúgur).

Helstu vínhéruð

Vínviður er í dag ræktaður í öllum héruðum Georgiu. Kakheti er langstærsta vínhéraðið – um 70% vínræktar Georgíu er í Kakheti. Það er austast í landinu og á landamæri að Rússlandi og Aserbaídjan. Kartli er vestan við Kakheti og þar er höfuðborgin Tblisi. Önnur mikilvæg héruð eru Imereti, Alazani og Racha-Lechkhumi. Saperavi er mest ræktaða þrúgan í Kakheti, Kartli og Alazani, en í Racha-Lechkhumi og Imereti er hvíta þrúgan Tsolikouri mest ræktaða þrúgan.

Í Vínbúðunum

Þegar þetta er skrifað fást 16 mismunandi vín frá Georgíu í hillum Vínbúðanna – 6 hvítvín, 8 rauðvín, 1 rósavín og 1 freyðivín. Nokkrum þeirra verða gerð skil hér á Vínsíðunni á næstu dögum.

Vinir á Facebook