Antica Fratta Franciacorta Brut

Nú þegar áramótin eru nærri eru sumir líklega farnir að huga að áramótavínunum. Það tilheyrir auðvitað að fagna nýju ári og skála í góðu freyðivíni, hvort sem það er á miðnætti eða bara þegar veislan hefst. Mörgum dettur eflaust fyrst í huga kampavín, enda þekktasta freyðivínið. Kampavín kosta flest vænan skilding, en það eru til góðir valkostir á betra verði. Ódýrustu kampavínin í vínbúðinni kosta um 5.000 krónur (og það dýrasta kostar rúmar 38.000 krónur).

Góður valkostur við kampavín eru vín sem eru framleidd með sömu aðferð. Í vínbúðunum fást fjölmörg freyðivín sem framleidd eru með kampavínsaðferðinni – m.a. frá Frakklandi, Ítaliu og Spáni. Frönsk freyðivín sem framleidd eru með kampavínsaðferðinni, en í öðrum héruðum en Champagne, kallast Crémant. Spænsku Cava-freyðivínin eru gerð á sama hátt, og á Ítalíu eru Franciacorta-freyðivín gerð með þessari aðferð.

Héraðið Franciacorta er í norðurhluta Ítalíju, rétt austan við borgina Milano. Nafnið mun vera ættað úr latínu – „francae curtes“ – sem táknar að þorp á þessu svæði voru undanþegin skattskyldu snemma á miðöldum (elstu heimildir um þetta er frá árinu 1277). Víngerð þarna á sér langa sögu en það er þó ekki fyrr en árið 1957 að vín var kennt við Franciacorta þegar Guido Berlucchi sendi frá sér vín sem kallaðist Pinot di Franciacorta. Á sama tíma var metnaðarfullur víngerðarmaður að störfum hjá Berlucchi sem fékk leyfi til að prófa að gera freyðivín með kampavínsaðferðinni. Árið 1961 kom fyrsta vínið á markað og framleiðslan, sem var aðeins um 3.000 flöskur, seldist upp eins og heitar lummur. Vínið hlaut glimrandi viðtökur og árið eftir fékkst heimild til að gera 20.000 flöskur. Fljótlega var framleiðslan svo komin í 100.000 flöskur á ári og fleiri framleiðendur hófu að gera vín sem þessum hætti.

Árið 1967 var Franciacorta DOC (Denominazione di origine controllata – skilgreindur og vottaður uppruni) skilgreint og þá voru 11 framleiðendur að búa til Franciacorta-freyðivín. Þetta var fyrsta ítalska freyðivínið sem skal búa til með kampavínsaðferðinni. Árið 1995 var héraðið skilgreint sem DOCG (Denominazione di origine controllata e garantita – skilgreindur, gæðavottaður uppruni). Frá árinu 2003 hefur Franciacorta verið eina ítalska vínið þar sem framleiðendur þurfa ekki að tilgreina DOCG-upprunann á flöskumiðanum, á sama hátt og kampavínsframleiðendur þurfa ekki að tilgreina Champagne AOC á flöskumiðum kampavína.

Árið 2008 var tekin upp skilgreiningin Curtefranca DOC fyrir vín frá þessu svæði, önnur en freyðvín, til að forðast misskilning.

Franciacorta þurfa að vera minnst 25 mánaða gömul þegar þau fara á markað, og þar af þarf vínið að vera minnst 18 mánuði í snertingu við gerið í flöskunni (lágmarkið fyrir kampavín eru 15 mánuðir). Margir framleiðendur hafa þann tíma mun lengri en lágmarkið kveður á um. Árgangs-Franciakorta þurfa að vera minnst 37 mánaða gömul þegar þau fara á markað, með minnst 30 mánaða snertingu við gerið (líkt og gildir um árgangs kampavín). Aðeins er heimilt að nota Chardonnay, Pinot Noir (Pinot Nero) og Pinot Bianco við gerð Franciacorta.

Vín dagsins

Antica Fratta Franciacorta Brut kemur frá vínhúsi Antica Fratta, sem hefur búið til freyðivín frá árinu 1979. Vínið er gert úr þrúgunum Chardonnay (90%) og Pinot Nero (10%). Vínið hefur legið í 18 mánuði í snertingu við gerið, eins og reglur kveða á um. Vínið er fallega fölgullið í glasi og freyðir vel. Í nefinu er ríflega miðlungsþéttur, blómlegur ilmur af eplum, perum, sítrusávöxtum, brioche-brauði, möndlum og smá hunangi. Í munni freyðir vínið fínlega, hefur góða sýru og ávaxtaríkt bragð með grænum eplum, perum, möndlum og brioche. 91 stig. Mjög góð kaup (4.290 kr). Fer vel með sushi og skelfiski eða til að fagna áramótunum!

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (2.585 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gaf þessu víni 88 punkta (umsögnin reyndar gerð árið 2013) og Wine Spectator gaf einnig 88 stig.

Antica Fratta Franciacorta Brut
Mjög góð kaup
Antica Fratta Franciacorta Brut fer vel með sushi og skelfiski eða til að fagna áramótunum!
4.5
91 stig

Vinir á Facebook