Viña Tondonia Reserva 2009

Vínhús R. López de Heredia er á meðal elstu vínhúsa í Rioja, og byggingin sem hýsir víngerðina er frá árinu 1877. Líkt og gildir um alvöru stórbyggingar á Spáni þá er byggingarferlinu hvergi nærri lokið. Í dag telja fermetrarnir rúmlega 53 þúsund þegar kjallarrýmið er talið með, en þar eru á hverjum tíma um 13.000 tunnur í geymslu.

Viña Tondonia var stofnað árið 1913 og hefur með tímanum orðið flaggskip López de Heredia. Vínekrur Viña Tondonia ná yfir um 100 hektara meðfram ánni Ebro við bæinn Haro í hjarta RIoja. Þrúgurnar af þessum vínekrum fara í vín Viña Tondonia, en aðeins í bestu árgöngum er Gran Reserva búið til. Í Viña Tondonia eru menn sannfærðir um ágæti þess að láta vínin þroskast á tunnum, og því til sönnunar má benda á að auk þessa að búa til hefðbundið Reserva og Gran Reserva rauðvín, þá eru einnig gerð Reserva og Gran Reserva hvítvín og Gran Reserva rósavín. Vínin frá Viña Tondonia fá hins vegar að liggja mun lengur á tunnu en gengur og gerist, og geymslutíminn er oftast nálægt leyfilegum hámarkstíma.

Viña Tondonia Reserva 2009 er gert úr Tempranillo (75%), Garnacha (15%), Graciano (5%) og Mazuela (5%). Vínið er rúbínrautt á lit, með góða dýpt og ágætan þroska. Ilmurinn er þéttur og þar eru leður, tóbak, kirsuber, vanilla og eik ráðandi. Í munni eru þétt tannín, miðlungs sýra, góð fylling og þéttur ávöxtur. Kirsuber, leður, balsam, súkkulaði og tóbak í löngu og góðu eftirbragðinu. Frábært vín. 95 stig. Fer vel með góðri steik, ostum, spænskri skinku og pylsum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjórnur (4063 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur því 93 stig

Viña Tondonia Reserva 2009
Frábær kaup
López de Heredia Viña Tondonia Reserva 2009 er frábært vín fer vel með góðri steik, ostum, spænskri skinku og pylsum.
5
95 stig

Vinir á Facebook