La Rioja Alta Viña Arana Gran Reserva 2014

Á þessum tíma árs fer ég venjulega að huga að ársuppgjöri Vínsíðunnar og átta mig á því að það er fjöldi umsagna sem ég á eftir að setja inn á síðuna. Lesendur Vínsíðunnar hafa eflaust tekið eftir því hversu rólegt hefur verið á síðunni frá í sumar. Ég hef þó ekki setið auðum höndum og náð að smakka fjölda áhugaverðra vína. Þá er ég líka byrjaður í WSET-3 námi sem lýkur í mars og því nóg að gera við að fræðast um vín og smakka. Ég ætla að reyna að koma inn sem flestum óbirtum umsögnum inn á Vínsíðuna fyrir áramót en þori ekki að lofa að þær birtist allar (sýnist að þær séu um 100…). Það er því viðbúið að margar þeirra verði í styttri kantinum og upplýsingarnar sem hafa fylgt umfjöllunum verða ekki jafn ítarlegar og áður.

Það er eiginlega synd að hefja þessa hraðferð á víni frá La Rioja Alta, sem er eitt af betri (og stærri) vínhúsum Rioja. Ársframleiðslan nálgast 1,5 milljónir flaskna á hverju ári, en það er þó enginn afsláttur gefinn á gæðum. Vínhúsið hefur eignast önnur vínhús á svæðinu og m.a. notað þau til að þróa víngerðina á meðan flaggskipin halda upprunalegum stíl.

La Rioja Alta Viña Arana Gran Reserva 2014 er nútímalegt Rioja í fullum gæðum. Það er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og miðlungs þroska. Í nefinu finnur maður einkum vanillu, lakkrís, rauð kirsuber, sólber, súkkulaði og eik. Miðlungstannín sem eru farin að mýkjast, miðlungs sýra og góður skrokkur. Kirsuber, balsam, súkkulaði og vanilla ráðandi í þéttu og góðu bragðinu, ásamt tókbaki og eik. Ljómandi gott vín sem fer vel með spænskum mat – pylsur, grillað svínakjöt og nautakjöt. 92 stig. Góð kaup (5.999 kr). Í dag er 2015-árgangurinn í hillum vínbúðanna sem mun vera enn betri en þessi sem hér um ræðir og full ástæða til að prófa það. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur þeim árgangi 5 stjörnur.

Robert Parker gefur þessu víni 90 stig og notendur Vivino gefa því að meðaltali 4,3 stjörnur (2.178 umsagnir þegar þetta er skrifað).

La Rioja Alta Viña Arana Gran Reserva 2014
Góð kaup
La Rioja Alta Viña Arana Gran Reserva 2014 er ljómandi gott vín sem fer vel með spænskum mat - pylsur, grillað svínakjöt og nautakjöt.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook