Monte Real Rioja Gran Reserva 2012

Ég hef verið að versla mér inn mér nokkuð af vínum á netinu undanfarið ár. Ég hef þá einblínt á vín sem ekki eru fáanleg hérlendis og yfirleitt talið mig vera að gera nokkuð góð kaup. Snemma í haust komst ég yfir kassa af Monte Real Gran Reserva 2012 og var bara nokkuð sáttur við kaupin. Stuttu síðar sá ég að þetta vín var komið í vínbúðirnar (reyndar 2011-árgangurinn sem er ekki alveg jafn góður og 2012 en samt alls ekki svo slæmur). Þessi góðu kaup reyndust því ekki alveg jafn góð og ég hélt í fyrstu, en ég er samt alveg sáttur…

Saga Bodegas Riojanas nær aftur til 18. aldar, en formlega var vínhúsið ekki stofnað fyrr en árið 1890. Í dag heyra þrjú önnur vínhús undir Grupo Bodegas Riojanas.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur eins og áður segir frá Bodegas Riojanas. Hér er um að ræða hreint Tempranillo sem hefur fengið að liggja á 24-30 mánuði á amerískum eikartunnum fyrir átöppun á flöskur. Uppskeran árið 2012 var um 8.000 kassar (48.000 flöskur).

Monte Real Rioja Gran Reserva 2012 er dökkrúbínrautt á lit með byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður skógarber, pipar, sólber, leður, vanilla, lyng og eik. Í munni eru ágæt tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Balsamtónar ásamt sólberjum, leðri og eik í góðu eftirbragðinu. Fyrirtaks lambavín en fer líka vel með nauti og léttari villibráð. Mjög góð kaup (2011-árgangurinn kostar 3.298 kr í vínbúðnum). 92 stig.

Wine Spectator gefur þessu víni 93 stig. Notendur Vivino gefa 4.0 stjörnur (668 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Monte Real Rioja Gran Reserva 2012
Monte Real Rioja Gran Reserva 2012 er fyrirtaks lambavín en fer líka vel með nauti og léttari villibráð. Mjög góð kaup.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook