Flottur Cabernet frá Argentínu

Jæja, nú er maður kominn í sumarfrí og hvílík byrjun á sumrinu!  Sól og blíða hvern einasta dag og því dæmigert að ég hafi valið einmitt þennan tíma til að yfirgefa skerið.  Við brugðum okkur nefnilega til Frakklands á HM kvenna í fótbolta og notuðum tækifærið til að skoða sveitir Frakklands með því að aka sveitavegi á milli borganna í stað þess að taka hraðbrautina. Vissulega tekur það aðeins lengri tíma en hefur þó sína kosti – við duttum til dæmis inn á frábæran lítinn veitingastað – Auberge de la Haute Epine – miðja vegu milli Reims og Parísar og kíktum í smakk hjá litlum kampavínsframleiðanda – Pascal Cez – og auðvitað rataði smávegis heim með okkur til frekari athugunar síðar.

Ég hafði hins vegar alveg gleymt að leggjast yfir úrvalið í Fríhöfninni en get vonandi bætt úr því á næstunni og birt nýjan innkaupalista.

Vín dagsins

Eitt af því sem rataði með heim úr Fríhöfninni er vín dagsins, sem kemur frá Argentínu, nánar tiltekið frá Mendoza-héraði.  Ég held að flestir lesendur Vínsíðunnar kannist við framleiðandann Trivento, enda hafa vín þeirra verið fáanleg hérlendis í nokkuð mörg ár og fallið vel að bragðlaukum landans.  Vín dagsins er úr s.k. Golden Reserve-línu, en úr þeirri línu er einnig hægt að fá Syrah, Malbec og Chardonnay.  Vínin kosta öll 2.999 kr og verða að teljast mjög góð kaup miðað við gæði.

Trivento Golden Reserve Cabernet Sauvignon 2015 er kirsuberjarautt á lit, smá þroski kominn í vínið og það er ágæt dýpt. Í nefinu finnur maður sólber, lakkrís, leður, pipar, vanilla og eik.  Í munni eru fín tannín, góður ávöxtur og ágæt sýra. Sólber, pipar, súkkulaði og eik í góðu eftirbragðinu. Fer með öllu rauðu kjöti sem ratar á grillið ykkar í sumar.  Ekki ætlað til langrar geymslu. 90 stig.

Mjög góð kaup (2.999 kr).

Hvað segja hinir?

Wine Spectator gefur 88 stig.
Wine Enthusiast gefur 84 stig.
Þorri Hringsson gefur 4 stjörnur

Vinir á Facebook