Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að skrifa eitthvað um Costco hér á Vínsíðunni, en við vínáhugamenn getum þó glaðist yfir því að nokkur af þeirra vínum eru nú fáanleg í völdum vínbúðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Þessi vín eru framleidd sérstaklega fyrir Costco en að baki þeim eru þokkalega þekktir vínframleiðendur sem uppfylla þær gæðakröfur sem Costco gerir til Kirkland Signature vörulínunnar. Framleiðandi kampavínsins þeirra er kampavínshús Janisson & Verzenay – ekkert sérstaklega þekktur framleiðandi sem hefur þó sent frá sér prýðisgóð kampavín á góðu verði.
Vín dagsins
Kampavínið frá Kirkland Signature er búið til úr þrúgunum Chardonnay, Pinot Meunier og Pinot Noir, þ.e. það er búið til úr bæði „hvítum“ og „svörtum“ þrúgum og getur því hvorki kallast Blanc de blancs („hvítt úr hvítu“ – bara Chardonnay) né Blanc de noirs („hvítt úr svörtu“ – Pinot Noir og Pinot Meunier).
Kirkland Signature Brut Champagne er sítrónugult á lit með fínar loftbólur. Í nefi er vínið með angan af gulum eplum, ristuðu brauði og fínlegum sítrustónum. Í munni er vínið þurrt með fríska sýru. Eplakeimur, örlitilir gertónar og væg beiskja í þægilegu eftirbragðinu. Mjög góð kaup (3.602). Fer með með fiski og skelfiski. 88 stig.