Gyllta netið

Það er eitthvað heillandi við gyllta netið sem er utan um sumar vínflöskur frá Spáni.  En hver skyldi vera sagan á bak við þessi net?

Árið 1858 stofnaði Camilo Hurtado de Amézaga, betur þekktur sem markgreifinn af Riscal, samnefnda víngerð – Bodegas Marques de Riscal.  Camilo hafði lært víngerð í Bordeaux og þegar hann sneri heim frá Frakklandi hóf hann að búa til vín í frönskum stíl úr Tempranillo-þrúgunni, sem er ráðandi í Rioja.  Vínin slógu fljótlega í gegn og urðu í uppáhaldi hjá Alfonso 12. Spánarkonungi.  Vínin urðu þar af leiðandi eftirsótt og í kjölfarið fór að bera á fölsuðum vínum (þetta með fölsuð vín er greinilega ekkert nýtt).  Til að stemma stigu við þessu fann Camilo upp þunnt, gyllt net sem hann setti utan um flöskurnar, þannig að ómögulegt var að eiga við tappann án þess að skemma netið.  Þannig sást greinilega ef átt hafði verið við flöskurnar (innihaldinu skipt út fyrir annað lélegra vín) því þá skemmdist netið, og ekki var hægt að setja það aftur á flöskurnar þegar það hafði verið fjarlægt.  Fljótlega fylgdu aðrir framleiðendur gæðavína í Rioja í fótspor Camilo og fór að setja net á flöskurnar sínar.  Netið varð svo tákn gæðavína frá Rioja og er notað enn í dag, en nú er það frekar hefð en til að koma í veg fyrir falsanir.

Vín dagsins

Vín dagsins er Gran Reserva frá Bodegas Campo Viejo, en sú víngerð er íslendingum að góðu kunn (þannig er Reserva-vinið með vörunúmer 135 í vínbúðinni og því greinilega verið lengi fáanlegt í Ríkinu).  Vínið er blandað úr þrúgunum Tempranillo (85%), Graciano (10%) og Mazuelo (5%). Það var látið gerjast í stáltönkum en síðan látið þroskast í minnst 5 ár, þar af í 2 ár á tunnum úr franskri eik.

Campo Viejo Rioja Gran Reserva 2012 er kirsuberjarautt á lit með byrjandi þroska.  Í nefinu er frekar lokuð lykt, en þó má greina þar leður, pipar og sólber.  Í munni eru ágæt tannin, hæfileg sýra og fínn ávöxtur. Eik, tóbak, kaffi og skógarber í eftirbragðinu. Ágæt kaup (2.999 kr). 89 stig.

Hvað segja hinir?

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.8 stjörnur (732 umsagnir).

Wine Enthusiast gefur víninu 90 stig.

Steingrímur í Vínotek gefur 4,5 stjörnur.

Þorri í Víngarðinum gefur 4,5 stjörnur.

Vinir á Facebook