Flottur portúgali

Árið 2002 hófst formlegt samstarf Roquette og Cazes fjölskyldanna, en báðar eiga sér langa sögu í víngerð.  Portúgalinn Jorge Roquette býr til eitt af betri vínum Portúgals, Quinta do Crasto, og Jean-Michel Cazes kemur frá vínhúsi Chateau Lynch-Bages í Bordeaux.

Fyrsti afraksturinn af samstarfi þeirra var rauðvínið Xisto, rauðvín í Bordeaux-stíl en búið til úr portúgölskum þrúgunum Touriga Nacional, Touriga Franca og Tinta Roriz.  Vín dagsins er búið til úr sömu þrúgum en samt í portúgölskum stíl.

Vín dagsins

Vín dagsins er eins og áður segir gert úr þrúgunum Touriga Nacional (60%), Touriga Franca (15) og Tinta Roriz (25%). Vínið er látið liggja í 16-18 mánuði á tunnum úr franskri eik (70% nýjar tunnur, 30% notaðar). Bæði Wine Spectator og Robert Parker gefa þessum árgangi 90 stig.

Roquette e Casez Douro 2014 er dökk-kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá. Í nefinu er góður ilmur af plómum, leðri, vanillu, kirsuberjum, te og kryddum. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Sólber, kirsuber, lakkrís og plómur í góðu eftirbragðinu. Mjög góð kaup (3.799 kr). 91 stig

Vinir á Facebook