Creole 2016

Undanfarið hef ég fjallað um tvö vín í Adventure-línunni frá Morandé, sem eru afrakstur af samstarfi Belén-hópsins í Chile.  Hér er svo komið þriðja vínið úr þessari línu, en alls eru 10 vín sem hafa komið frá þessum hóp tilheyrandi þessari línu (hin 7 eru enn sem komið er ekki fáanleg hérlendis).

Vín dagsins

Vín dagsins er blanda af þrúgunum Cinsault (85%) og Pais (15%). Cinsault er mikið ræktuð í Frakklandi og þá einkum í Languedoc-Roussillon (4. mest ræktaða þrúgan í Frakklandi), en einnig í Suður-Afríku. Cinsault er annað „foreldri“ Pinotage-þrúgunnar sem er ein mest ræktaða þrúgan í Suður-Afríku (hitt foreldrið er Pinot Noir).  Þrúgan Pais var mest ræktaða þrúgan í Chile allt fram að síðustu aldamótum þegar Cabernet Sauvignon tók fram úr henni. Í Argentínu og Chile er þrúgan stundum kölluð Criolla Chica. Nafn vínsins Creole er dregið af þessu heiti og vísar til frumbyggjahlutverk þessarar þrúgu, sem talið er að hafi komið til Suður-Ameríku með spænska landkönnuðinum Cortes.

Vínið var látið gerjast í stórum „eggjum“ úr steinsteypu og svo látið liggja í 5 mánuði á vel notuðum tunnum úr franskri eik (tunnurnar hafa verið notaðar a.m.k. 5-6 sinnum áður). Robert Parker gefur þessu víni 90 stig.

Morande Adventures Creole 2016 er ljósrautt á lit og minnir liturinn einna helst á pinot noir.  Í nefinu finnur maður hindber, jarðarber, kokteilber, appelsínubörk, myntu og kanel.  Í munnier vínið mjög frísklegt með mild tannín og ágæta fyllingu.  Hindber, appelsínubörkur, piparkökur og ögn af leðri í ágætu eftirbragðinu sem heldur sér vel.  90 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr).  Hentar vel með pasta með rauðum sósum, hörðum ostum, mögru kjöti, pylsum og krydduðum réttum.

 

Vinir á Facebook