El Padre 2012

Þó að þau séu mörg vínin í vínbúðunum sem innihalda Cabernet Franc, þá er aðeins eitt vín sem er að uppstöðu til Cabernet Franc.  Þau hafa svo sem ekki verið mörg slík í gegnum tíðina (mig rekur þó minni til að það hafi áður verið fáanlegt ítalskt vín úr hreinu Cabernet Franc…), en þessi þrúga gegnir þó lykilhlutverki í franskri víngerð þar sem hún er hluti af Bordeaux-þrennunni (Cabernet Sauvignon, Merlot og Cabernet Franc) þar sem það gefur vínunum meiri byggingu.  Vín dagsins kemur reyndar frá Chile – úr smiðju Morandé og er afrakstur samstarfs Belén-hópsins (sjá umsögn um Mediterraneo).

Vín dagsins

Nafnið á víni dagsins vísar til þess að Cabernet Sauvignon mun vera afkvæmi Cabernet Franc og Sauvignon Blanc, en talið er að sú blöndun hafi átt sér stað á 17. öld.  Í vínið hefur verið laumað um 10% Cabernet Sauvignon og 5% Carignan. Vínið fékk að liggja í 18 mánuði á tunnum úr franskri eik og svo ár í flösku áður en það var sett í sölu.

Morande Adventure El Padre Cabernet Franc 2012 er dökk-purpurarautt, með góða dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu eru vanilla, súkkulaði, sólber, sulta, pipar, vottur af útihúsi og eik. Í munni eru ágæt tannín og þokkaleg sýra.  Vínið hefur góðan kraft í byrjun og ágæta yfirbyggingu en hins vegar vantar nokkuð upp á fyllinguna í eftirbragðinu.  Létt og gott drykkjarvín, minnir örlítið á Zinfandel.  Hentar líklega best með ítölskum mat.  Féll ekki alveg í kramið hjá Vínklúbbnum sem gaf þessu víni 86 stig. Engu að síður áhugavert vín sem vel er hægt að mæla með. Ágæt kaup (2.999 kr).

Vinir á Facebook